Þór og Valur munu berjast um síðara lausa sætið í úrvalsdeild karla í körfubolta næsta vetur og fer fyrsti leikur liðanna fram
í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri kl. 19:15. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast upp um deild, leikið er heima og heiman
en komi til oddaleiks verður hann leikinn á Akureyri. Óðinn Ásgeirsson, fyrirliði Þórs, segir sína menn vera klára í slaginn.
„Þetta verður hörkurimma en við erum tilbúnir. Við unnum þá á útivelli en svo steinlágum við fyrir þeim hérna
heima þannig að þetta verður örugglega jafnt. Þeir eru mjög sterkir og hafa tvo mjög góða útlendinga í sínum
herbúðum,” segir Óðinn.
Valsmenn eru nokkuð brattir fyrir rimmuna og segir Sigmar Páll Egilsson, fyrirliði Vals, að liðið sé að smella saman á besta
tíma.
„Vörnin hjá okkur hefur verið slök í vetur en núna í undanúrslitaleikjunum fór hún loksins að smella og það
gerist á besta tíma. Við erum því nokkuð bjartsýnir á þetta einvígi og þótt að þeir hafi heimaleikjaréttinn
að þá er það þannig með okkur að við höfum verið spila betur á útivelli í vetur,” segir Sigmar.
Nánar er rætt við þá Óðinn og Sigmar um úrslitarimmuna í Vikudegi sem kom út í
gær.