Vélsmiðjan á Akureyri lokar um næstu mánaðamót

Þeir félagar Sveinn Rafnsson og Birgir Torfason, hafa ákveðið að loka veitingastaðnum Vélsmiðjunni á Akureyri um næstu mánaðamót og verður síðasti dansleikurinn í húsinu haldinn laugardaginn 30. apríl. Þetta er vissulega tímamót því á Vélsmiðjunni og áður Pollinum í Gránufélagshúsinu við Strandgötu, hafa bæjarbúar og gestir dansað og skemmt sér frá árinu 1993, þegar Sigurður Sigurðsson og Alfreð Gíslason hófu þar veitingarekstur.  

Sveinn og Birgir opnuðu Vélsmiðjuna í nóvember 2003 en þeir segjast orðnir þreyttir á þessum rekstri, enda sé rekstrarumhverfið erfitt og fólk hætt að sækja staðinn í sama mæli og áður. Þjóðfélagið hafi breyst og tími dansleikja með hljómsveitum virðist liðinn, í bili að minnsta kosti og diskótekið að verða ofan á. Þá hefur ástandið í þjóðfélaginu líka haft áhrif, að mati Sveins og Birgis. Fólk hafi minna á milli handanna og fari sjaldnar út á lífið. Frá síðasta hausti hefur Vélsmiðjan aðeins verið opin á laugardagskvöldum og segir Birgir að það sé engan veginn nógu góð nýting á húsnæðinu að hafa opið í 16 klukkustundir á mánuði. Því sé nú komið að leiðarlokum. "Við höfum verið að fá mjög góða aðsókn í gegnum tíðina og t.d. um síðustu helgi var hér kjaftfullt hús á balli með  SS Sól," sagði Sveinn.

Hjá Vélsmiðjunni hafa starfað 15 manns í hlutastarfi og segja þeir félagar að það sé eftirsjá í starfsfólkinu, sem nú missir vinnuna. "Við höfum haft mjög gott starfsfólk alla tíð og hér hefur verið lítið um mannabreytingar og fyrir það erum við þakklátir. Starfsfólkið skilur þetta, enda hefur það fylgst með þróuninni eins og við. En sjálfsagt er einhver þarna úti sem lítur á það sem tækifæri að opna svona stað þegar við lokum." Þá segjast þeir félagar einnig haft átt mjög gott samstarf við fjölmarga aðila í gegnum tíðina, m.a. lögreglu og slökkvilið.

Fyrirtæki Sveins og Birgis, GSB veitingar ehf., rekur einnig Kaffi Akureyri og nú þegar tími Vélsmiðjunnar er liðinn ætla þeir félagar að einbeita sér að rekstrinum á Kaffi Akureyri, sem gengur vel. "Þar er boðið upp á diskótek og sem betur fer er yngra kynslóðin enn að skemmta sér."

Þeir félagar eiga húsnæði Vélsmiðjuunnar en eru ánægir með að hafa leigt það fyrirtæki sem tengist ferðaþjónustu. Húsnæðið henti vel fyrir slíka starfsemi, því sem dæmi leggja skemmtiferðaskipin sem sækja Akureyri heim á sumrin, nánast upp við gangstéttina framan við húsnæðið. Þá verði nýtingin á húsinu mun betri með þessum nýja rekstri.

Nýjast