Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaður vegna snjóflóðahættu

Á Norðurlandi eystra er hálka eða snjóþekja og ofankoma og er vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaður vegna snjóflóðahættu. Þæfingsfærð og skafrenningur er á veginum á Árskógsströnd og út á Ólafsfjörð einnig á Víkurskarði og Grenivíkurvegi. Þæfingsfærð og óveður er á Mývatnheiði. Hólasandur er ófær.  

Þæfingsfærð og óveður er á Tjörnesi einnig er þæfingsfærð frá Kópaskeri og til Raufarhafnar og austur á Langanes, ófært er um Hálsa. Þæfingsfærði er á Brekknaheiði. Á Norðurlandi vestra eru víðast hvar hálkublettir en þó er hálka og skafrenningur á Þverárfjalli og í Langadal. Snjóþekja og skafrenningur á Siglufjarðarvegi. Mjög mikil vindur og skafrenningur er á Blönduósi og þar í kring. Hálkublettir og skafrenningur á Vatnsskarði.
Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Austurlandi. Á Suðausturlandi er hálka austan við Höfn en autt þar fyrir vestan. Vegir á Suðurlandi eru greiðfærir. Á Vesturlandi eru hálkublettir á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og fáeinum öðrum leiðum. Á Vestfjörðum er víða nokkur hálka eða snjóþekja og sumstaðar skafrenningur eða él. Snjóþekja og élagagnur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum.
Samkvæmt ábendingum veðurfræðings á vef Vegagerðarinnar, er heldur vaxandi snjókoma um mest allt Norður- og Austurland. Eins á Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum vestur í Dýrafjörð. Sums staðar þétt logndrífa í fyrstu, en annars er vaxandi NA-átt, strekkingsvindur eða allhvass, þetta 10-15 m/s og talsvert kóf og lélegt skyggni verður á flestum vegum. Síðar í kvöld einnig suður alla Austfirði í Lón og Hornafjörð. Dregur víðast úr hríðinni undir nóttina og þá éljagangur, áfram þó skafrenningur og blinda víðast norðan- og austantil á landinu.

Nýjast