Var snemma staðráðinn í því að vinna við skriftir

Sigmundur og Elín fagna silfurbrúðkaupsafmæli á næsta ári.
Sigmundur og Elín fagna silfurbrúðkaupsafmæli á næsta ári.

Sigmundur Ernir Rúnarsson er fæddur þann 6. mars 1961 á Akureyri og bjó þar þangað til hann kláraði stúdentspróf úr MA árið 1981. Frá ungum aldri byrjaði Sigmundur að skrifa og hefur hann varla lagt niður pennann síðan. Vikudagur spjallaði við Sigmund en viðtalið var unnið af fjölmiðlafræðinemum í HA og birtist fyrst í Jólablaði Vikudags.

Það er á dimmu vetrar kvöldi í nóvember er undirritaður ráfar um Laufásveginn í miðbæ Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn var að mæla mér mót við Sigmund Erni Rúnarsson, rithöfund og fjölmiðlamann. Leið mín endar hjá stóru snjóhvítu húsi þar sem ég banka á dyr Sigmundar og konu hans, Elínar Sveinsdóttur. Rúnar Sigmundsson, eldri sonur Sigmundar og Elínar kemur til dyra og býður mig velkominn og gott kvöld.

Ég geng í bæinn þegar klukkan er að slá í hálf tíu en þá situr stórfjölskyldan við matarborðið að nýlokinni kvöldmáltíð. Sigmundur og Elín bjóða mig velkominn í bæinn og undirritaður heilsar öllu bæjarfólki samhliða því að biðjast forláts fyrir að trufla matartímann. Sigmundur er ekki lengi að vísa afsökunum mínum á bug og tjáir mér með stóru brosi á vör að á sínu heimili sé kvöldmáltíðin seint og  lengi, þau hefðu eflaust setið ennþá við borðið hefði ég mætt klukkustund síðar.

Við Elín og Sigmundur setjumst inn í borðstofuna, en  þar eru fyrir Auður og Birta að huga að dóttur Birtu, Ragnhildi Eddu. Ragnhildur er eina barnabarn þeirra Sigmundar og Elínar, en saman eiga þau fjögur börn. Ásamt Auði (2004), Rúnari (1992) og Birtu (1990) eiga þau  Erni sem fæddur er árið 1996. Birta kveður, en hún er á hraðferð heim til sín en Auður er send upp í herbergið sitt. Hús þeirra við Laufásveg er glæsilegt. Þarna mætir antíkin nútímalistinni í fullkominni blöndu.

 

 Simmi sískrifandi

Sigmundur gaf út sína fyrstu bók, Tröllasaga, þegar hann var aðeins10 ára í Barnaskóla Íslands á Akureyri. ,,Ég var strax staðráðinn í því, bæði í gangfræðiskóla og menntaskóla að vinna við skriftir.” segir Sigmundur og heldur áfram ,,Það lá því beinast við að fara á dagblöðin eftir nám 1981. Ég fór á öll dagblöðin beint eftir að ég komað norðan. Fyrst prófaði ég Þjóðviljann, það var ekki laust þar. Síðan fór ég á Dagblaðið en það var ekki laust þar heldur. Síðast fór ég svo á Vísi þar sem að var laust og ég byrjaði þar. Ég tók bara röðina, en ég var frekar vinstrisinnaður þá en endaði síðan hjá hægrisinnaðasta blaðinu,” segir Sigmundur og uppsker hlátur viðstaddra. Seint árið 1981 sameinuðust Vísir og Dagblaðið og úr varð fréttablaðið DV. Sigmundur sat því fyrsta ritstjórnarfund DV árið 1981. Eftir tveggja ára stopp á Helgarpóstinum árin 1983-1985 ákvað Sigmundur að reyna fyrir sig í sjónvarpi þar sem honum bauðst starf hjá RÚV sem þáttastjórnandi síðla árs 1985. Árið 1987 færir Sigmundur sig síðan yfir á Stöð 2 og er þar til 2001 sem bæði fréttamaður og varafréttastjóri. Sigmundur átti síðan eftir að snúa aftur á Stöð 2 frá 2005-2009, meðal annars sem fréttastjóri, en í millitíðinni vann hann sem ritstjóri DV 2001-2003,  þáttastjórnandi á SkjáEinum 2003-2004 og fréttaritstjóri á Fréttablaðinu 2004-2005. Elín Sveinsdóttir, kona Sigmunds starfaði lengst af sem fréttapródusent hjá Stöð 2, en það er einmitt þar sem þau kynnast fyrst.

 

,,Við þekktumst ekkert áður en við byrjum að vinna á Stöð 2. Ég er að koma á stöðina nýkominn heim frá París og hann er að koma frá RÚV,” segir Elín og Sigmundur tekur við: ,,Svo féll Aurskriða í Ólafsfirði haustið 1988. Ég var sendur norður til að gera fréttina og á sama tíma er Elín að undirbúa skemmtiþáttinn „Í sumarskapi“ með Sögu Jónsdóttir og Jörundi Guðmundssyni í Sjallanum. Við sendum út frétt í beinni frá Sjallanum og Elín sminkaði mig þá til þess að fara í fréttina.” Elín bendir á að hún hafi nokkrum sinnum áður sminkað Sigmund fyrir fréttaútsendingar, en segir að ,,það var þarna þar sem að eitthvað gerðist.”

Sigmundir tekur undir og bætir við ,,ég held að við séum á nákvæmlega sama stað og örlögin ætluðu okkur.”

 

Harður heimur

Í janúar 2009 er Sigmundi og Elínu sagt upp stöfum á Stöð 2 af ástæðum sem en eru þeim óljósar. ,,Þetta voru þakkirnar sem maður fékk fyrir að taka þátt í uppbyggingu stöðvarinnar. Við vorum leidd út af stöðinni eins og sakamenn, við máttum ekki taka neitt með okkur og við fengum engar útskýringar. Þetta er harður heimur,” segir Sigmundur um málið. Uppsögnin átti sér stað þremur vikum eftir einhverja erfiðustu og eflaust hættulegustu sjónvarpsútsendingu í íslenskri fjölmiðlasögu. Kryddsíldin í lok árs 2008. ,,Kryddsíldin 2008 er náttúrulega bara eitthvað klikkaðasta atvik sem maður hefur upplifað á sínum fjölmiðlaferli. Það var einnig mjög tvísýnt hvernig þetta allt færi,“ segir  Sigmundur.  Sem kunnugt er gerði hópur mótmælenda aðsúg að stjórnmálamönnum og þáttastjórnendum sem sátu inni á Hótel Borg. „Í eftiráhyggju þá hefði getað farið mjög illa með líf og limi þessara ráðamanna sem voru þarna innilokuð” segir Sigmundur enn fremur. 

,,Það voru allir mjög skelkaðir en þjóðin var réttilega reið. Það var búið að stela frá henni miklum peningum og trúverðugleika. Blessaður kapítalisminn var orðinn gjaldþrota og óvíst var hvort að öll hans hefðbundnu gildi gætu lifað áfram. Það er ósköp eðlilegt að reiði fólksins hafi beinst að þeim sem stjórnuðu. Mér þykist samt verst að þessi reiði hafi bitnað á saklausu starfsfólki Stöðvar 2 sem átti engan þátt í hruninu. Fólk meiddist þarna og það var það sem mér þótti einna sárast, fyrir utan það að sjá í glottin á RÚV-urum úti á torgi,” segir Sigmundur um örlagaríkan lokadag ársins 2008. Þessi mótmæli táknuðu upphaf búsáhaldabyltingarinnar sem átti eftir að vera áberandi næstu mánuði.

 

Á Hringbraut

 

Í dag er Sigmundur dagskrár- og ritstjóri sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar eftir að hafa setið á Alþingi landsmanna í eitt kjörtímabil, frá 2009-2013, sem 2. þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi. Sigmundur hefur verið með Hringbraut frá upphafi en núna rúmum níu mánuðum eftir upphaf stöðvarinnar mælist Hringbraut sem stærsta „minni“ sjónvarpstöðin en hún er fjórða vinsælasta sjónvarpstöð landsins á eftir RÚV, Stöð 2 og SkjáEinum. Á Hringbraut er samansafn af reynslumiklu sjónvarps- og fjölmiðlafólki með nöfnum á borð við Pál Magnússon, Sigríði Arnadóttur og Karl Ágúst Úlfsson innanborðs. Sjónvarpstöðin býður uppá úrval af fjörugri og fjölbreyttri dagskrá alla daga vikunnar. Það er því lítið sem stendur í vegi Hringbrautar að verða einn daginn hluti af „stóru“ stöðvunum.

 

Sigmundur hreykir sér af jafnréttisstefnu Hringbrautar. Af þeim 22 þáttum sem sýndir eru á stöðinni alla vikuna eru 10 stýrt af konum. Á níu mánaða afmælisdegi stöðvarinnar voru birtar úr kynjabókhaldi stöðvarinnar áhugaverðar upplýsingar en slíkt er gert á afmælisdögum. Á viðmælendaskrá þann 18. nóvember síðastliðin má sjá að úr rúmlega 1100 viðmælendum sem stöðin hefur talað við hafa 579 þeirra verið kvenkyns á móti 595  karlkynsviðmælendum. Sigmundur segir um málið ,,við viljum sýna samfélagið eins og það er, en þar eru konur einmitt jafn margar og karlar, hafi það farið framhjá einhverjum!”

Ekki er algengt að sjónvarpstöðvar haldi kynjabókhald en RÚV birti í sumar jafnréttisáætlun þar sem taka átti á þessum málum hjá stöðinni en áætlun RÚV tekur ekki gildi fyrr en 1. desember 2015. Sigmundur gerir sér fyllilega grein fyrir mikilvægi kvenfólks í samfélaginu en Sigmundi er enn ferskur í minni afmælisdagur kvennafrídagsins fyrir áratug en af því tilefni lagði  kvenfólk á  Íslandi lagði niður störf líkt og gert var 1975. Kvenfólk var áberandi á Stöð 2 á þeim tíma og gegndu þær stóru  hlutverki. Fréttatíminn þetta kvöld fór ekki vel.  

,,Ég bara upplifi þetta sem aulahroll, hinn mesta. Auðvitað var maður þá búinn að átta sig á því fyrir margt löngu að samfélagið gæti ekkert fúnkerað í atvinnulegu tilliti án kvenna. Stöð 2 hefur alltaf verið frekar jafnréttissinnuð stöð. Það voru margar konur í veigamiklum lykilhlutverkum sem stjórnendur, pródúsentar, fréttamenn og dagskrágerðarfólk þannig að jafnréttið var svona tiltölulega afslappað og sjálfgefið. Það þurfti ekkert að koma á óvart að þegar konurnar fóru einn daginn að allt færi meira og minna til andskotans.”

„Sjónvarp, eins og öll skapandi vinna er þeirrar náttúru að þú getur alltaf gert betur. Í sjónvarpi, í blaðamennsku og að vissu leyti í útvarpi líka, þetta er að allt af þeirri náttúru að öll þín mistök í vinnu eru opinber. Allt sem þú gerir vitlaust, hvort sem það er röng fyrirsögn, röng myndbirting eða bara að þú ert að bora í nefið í beinni útsendingu, þá sést þetta allt, þú getur ekkert falið. Þetta er eina atvinnugreinin sem sýnir meira og minna öll sín mistök. Þetta er þannig vettvangur að hann er svo áberandi að svona hlutir fara ekki framhjá neinum. “

-AFA

Nýjast