Var búin að fá launalaust leyfi vegna stjórnlagaþings

"Niðurstaða Hæstaréttar kom mér óvart, ekki síst í ljósi þess hversu seint hún kemur fram, þar sem þingið átti að hefjast 15. febrúar. Ég hef samt ákveðið að halda sálarró og bíða eftir niðurstöðu stjórnvalda. Það er ekki búið að taka ákvörðun um hvort þetta verður blásið af, hvort það verður kosið aftur eða hvað verður gert," segir Dögg Harðardóttir. Hún er í hópi þeirra 25 einstaklinga sem náðu kjöri til stjórnlagaþings í lok nóvember sl.  

 Hæstiréttur hefur nú ógilt kosninguna vegna ýmissa annmarka við framkvæmdina. "Óneitanlega hlýtur maður að spyrja sig hvers sé ábyrgðin, þegar stjórnlagaþingsfulltrúar fá launalaust leyfi frá vinnunni sinni að beiðni stjórnvalda. Ég starfa hjá Akureyrarbæ og var búin að fá launalaust leyfi og það er búið að ráða manneskju til þess að leysa mig af. Þannig að ég lýsi eftir vinnu frá 15. febrúar."

Dögg hafði ráðgert að taka sér sumarfrí í hálfan mánuð frá næstu mánaðamótum og svo launalaust leyfi frá 15. febrúar, þar sem hún var að flytja að heiman, eins hún komst að orði. "Ég reikna með halda þessum sumarfríi til streitu og sjá hvað setur." Dögg segist ekki vera í neinu þunglyndiskasti yfir þessu en niðurstaðan kom henni á óvart og er viss vonbrigði. "Í þessari umræðu er verið að tala um þetta umhverfi en það hefur verið mjög lítið rætt um hvers konar framkoma þetta er gagnvart þeim sem voru kosnir á stjórnlagaþingið."

Stjórnlagaþingsfulltrúar funduðu í fyrrakvöld og þeir fulltrúar sem voru ekki staddir í Reykjavík voru í símasambandi við fundinn. "Það voru allir sammála um að bíða eftir formlegri niðurstöðu stjórnvalda og halda ró sinni. Það verður svo annar óformlegur fundur á laugardag, þar sem fulltrúarnir hittast og ráða sínum. Það er líka dálítið skrýtið að það hefur enginn haft samband við okkur stjórnlagaþingsfulltrúa. Við fréttum þetta allt saman í fjölmiðlum eins og aðrir og vitum ekkert meira en fólk úti í bæ. En upp úr stendur að ég vakna glöð á morgnanna og fer glöð að sofa á kvöldin og það rætist úr mínu lífi hvernig sem þetta fer allt saman."

Dögg segir að eins og pólítíkin sé, þá verði læti burtséð frá því hvaða ákvörðun verður tekin. "Hvort sem það verður ákveðið að blása stjórnlagaþing af, kjósa aftur, eða fela þessum 25 fulltrúum að halda áfram með málið. Ef stjórnlagaþingsfulltrúar eiga skaðabótakröfu á hendur ríkinu og ef við ættum rétt á einhverju þingfararkaupi, þá er miklu nær að reyna nýta okkur í vinnu í stað þessa að borga okkur fyrir að gera ekki neitt."

Ef það yrði kosið aftur segir Dögg það alveg óvíst hvort þessir 25 einstaklingar myndu allir bjóða sig fram og þá sé það nokkuð víst að þeir myndu ekki allir ná kjöri á ný.

Nýjast