Dekkjakurl er víða á gervigrasvöllum á Akureyri, m.a. í Boganum og á sparkvöllum. Um 1.500 börn stunda æfingar í Boganum að jafnaði í hverri viku. Í Norðurþingi er einn sparkvöllur við Borgarhólsskóla á Húsavík og annar á Raufarhöfn og svo nýr völlur í fullri stærð á Húsavík. Mikil umræða hefur verið um dekkjakurl á gervigrasvöllum en grunur leikur á að krabbameinsvaldandi efni séu í kurlinu, þó ekki hafi tekist að sýna fram á það með óyggjandi hætti.
Í frétt á mbl.is í síðustu viku var haft eftir Höskuldi Þórhallssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, að upplýsingar sem komu fram á fundi nefndarinnar í gærmorgun í tengslum við dekkjakurl hafi verið sláandi. Þar var haft eftir Höskuldi að fundarmönnum hafi verið bent á, „með mjög sannfærandi rökum að um verulega heilsuspillandi efni væri um að ræða og að sönnunarbyrðin í þessum málum eigi að vera öfug. Þeir sem taka ákvarðanir um að leggja þetta dekkjakurl á velli verði að sýna fram á að það sé ekki heilsuspillandi,“ sagði Höskuldur.
Ingibjörg Isaksen bæjarfulltrúi og formaður íþróttaráðs Akureyrarbæjar hafði ekki kynnt sér umræður á ofangreindum fundi þegar Vikudagur falaðist eftir viðbrögðum bæjarins. Spurð um sparkvellina á Akureyri og hvort dekkjakurl verði fjarlægt úr þeim segir Ingibjörg að viðhaldsáætlun sé í gangi. „Við erum að skoða þetta með alvarlegum augum og fylgjumst vel með nýjustu upplýsingum. En við höfum ákveðið að ráðast fyrst á vandann þar sem hann er stærstur, í Boganum, svo munum við skoða aðra velli. En mér finnst mikilvægt að við horfum á rannsóknir og tökum mið af þeim, sérstaklega þegar um mikla fjármuni er að ræða.“ Nýr gervigrasvöllur á KA-svæðinu inniheldur litað dekkjakurl, sem talið var best þegar sá völlur var gerður. „En nú er talað um iðnaðargúmmíið,“ segir Ingibjörg.
Dagskrain.is hafði samband við Kjartan Pál Þórarinsson tómstunda- og æskulýðsfulltrúa í Norðurþingi og spurði hann um málið. Hann sagði að ekki væri búið að taka ákvörðun um hvað gera ætti að svo stöddu en málið væri þó litið alvarlegum augum. „Þetta höfum við tekið til umfjöllunar hjá okkur tvívegis hjá tómstunda og æskulýðsnefnd. Umræðan er komin býsna langt í þessu og mín skoðun er sú að það þurfi fyrst að fá almennilega úr því skorið hverskonar kurl er í notkun og hver skaðsemin er. Og er það sem á að koma í staðinn hættuminna?“ Segir hann. Hann bendir jafnframt á að sveitarfélög séu almennt frekar ráðvillt í þessum málum. „Þau fjárfesta (eða fá í gegnum KSÍ verkefnin) í vöru í góðri trú með öllum vottunum og leyfum,“ segir Kjartan. Þess má geta að gervigrasið á Húsavík var vottað síðastliðið sumar með FIFA 2star vottun.
Skipt verður um gervigras í Boganum á Akureyri í sumar og verður notað iðnaðargúmmí sem ofaníburður í stað dekkjakurls. Um er að ræða endurunnið gúmmí sem er m.a. unnið úr íþróttaskóm og heimilistækjum og er grátt að lit. „Þetta gúmmí mun uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í dag og þeir vellir sem hafa verið byggðir á undanförnum árum, eins og t.d. í Egilshöllinni innihalda þetta iðnaðargúmmí,“ segir Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi og formaður íþróttaráðs Akureyrarbæjar.
Kjartan Páll segir að á öllum gervigrasvöllunum Í Norðurþingi sé um svart kurl að ræða. „Ýmist er talað um dekkjakurl eða iðnaðarkurl. Hvort það er sitt hvor hliðin á sama teningnum skal ég ekki segja til um. Aðili sem ég ræddi við hjá umhverfisstofnun vildi meina að það sé til a) iðnaðarkurl og b) dekkjakurl. Iðnaðarkurlið sagði hann skömminni skárra þar sem að það væri ekki vitað hvað væri í dekkjakurlinu. Yfirvallarstjóri KSÍ sagði að þetta væri allt það sama hvort sem þetta er kallað dekkja eða iðnaðarkurl,“ segir hann og bendir á að umhverfisstofnun ætli sér að taka sýni til að greina vandann þegar snjóa leysir.
Ingibjörg Isaksen segir Heilbrigðiseftirlitið vinna að því að taka sýni á ýmsum sparkvöllum og athuga hvort skaði sé af kurlinu. „Við munum bíða eftir þeim niðurstöðum áður en við ákveðum hvað við gerum varðandi aðra gervigrasvelli. Við erum engu að síður að ráðast á vandann þar sem hann stærstur og bregðast þannig við,“ segir Ingibjörg. Hún kallar ennfremur eftir því að stjórnvöld og KSÍ komi að málunum. „Mér finnst að þetta eigi ekki eingöngu að liggja á sveitarfélögunum sem eru illa sett. Ríkið ætti að koma til móts við okkur. Einnig KSÍ sem sá um að sparkvallavæða landið,“ segir Ingibjörg.
Kjartan tekur fram að sparkvellirnir við Borgarhólsskóla á Húsavík séu farnir að láta á sjá. „Ég og umsjónarmaður fasteigna viljum freista þess að ná því inní áætlanir sveitarfélagsins að taka þá velli upp árið 2017. Þá yrði (ef af verður) skipt um gúmmí og gras. Það er sú leið sem var valin á Norðurlöndunum. Gúmmíið var talið hafa óveruleg áhrif og er því skipt út með reglulegu viðhaldi og endurnýjun. Kostnaðurinn við að taka gúmmíið upp eitt og sér og setja annað ofaní gamlan völl er eitthvað sem verktakar segja að sé ekki skynsamlegt, nema skipta um mottuna í leiðinni,“ segir Kjartan. Þá má benda á það að mörg sveitarfélög binda vonir við að KSÍ komi að borðinu og leggji til fjármagn, enda hafi gerð sparkvalla víða um land verið liður í verkefni KSÍ.
Kjartan vill að lokum taka fram að gæði grasmottunnar sem er á stóra vellinum á Húsavík séu mjög mikil. Þess vegna er snerting við gúmmíið á stóra vellinum mun minni en á sparkvöllunum. Hann bendir á að ef gerð yrði óformleg könnun, t.d. með því að „taka tvo eins bolta og sparka þeim í klukkutíma á stóra vellinum annars vegar og á sparkvellinum hjá skólanum hinsvegar. Skólaboltinn myndi verða töluvert litaður en hinn nokkuð hreinn“, segir Kjartan og bætir við að fylgst verði náið með þróun þessara mála og brugðist við eftir því sem við á.
Hluti af þessari úttekt birtist áður í prentútgáfu Vikudags þann 10. mars sl. Nánar verður fjallað um málið í næsta tölublaði Vikudags sem kemur út 17. mars. Þar verður m.a. leitað viðbragða frá Samtaka, samtökum foreldrafélaga á Akureyri. ÞEV/EPE