Uppbygging akstursíþrótta- svæðis ofan Akureyrar

Í dag var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Bílaklúbbs Akureyrar (BA) um uppbyggingu og rekstur akstursíþróttasvæðis í mynni Glerárdals ofan Akureyrar, sem og um rekstur klúbbsins. Akureyrarbær leggur BA til um 366.000 m2 svæði en landið verður eftir sem áður eign Akureyrarbæjar. Samningurinn gildir til og með 31. desember 2016 og á þeim tíma er framlag Akureyrarbæjar til uppbyggingar 1. áfanga svæðisins metinn á um 182 milljónir króna sem felst í afnotum lands, framkvæmdum og beinum fjárframlögum.  

Markmið Akureyrarbæjar með gerð samningsins er meðal annars að til verði ökugerði þar sem fari fram kennsla og fræðsla einstaklinga vegna ökuprófs og að allar akstursíþróttir færist af götum bæjarins á umráðasvæði BA. Einnig mun akstursþjálfun lögreglu, slökkviliðs og Strætisvagna Akureyrar fara fram á svæðinu. Öll hönnun og uppbygging akstursíþróttasvæðisins verður í höndum og á ábyrgð BA. Klúbburinn annast alla þjónustu við viðskiptavini, æfingar og mót á vegum félagsins og annarra sem nýta munu akstursíþróttasvæðið. BA tryggir að opnunartími svæðisins verði eins rúmur og kostur er en þó í samræmi við gildandi rekstraráætlanir á hverjum tíma. BA greiðir allan rekstrarkostnað vegna akstursíþróttasvæðisins og mannvirkja sem tengjast því.

Akureyrarbær greiðir BA einnig rekstrarstyrk á árunum 2011 til 2016 í formi æfingastyrkja vegna afnota BA af akstursíþróttasvæðinu. Einnig er í samningnum kveðið á um rekstrarstyrk vegna almenns íþróttastarfs félagsins, reksturs skrifstofu, mannvirkja og launa framkvæmdastjóra.

Nýjast