Umhverfisþing í Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði

Umhverfisþing var haldið í Stórutjarnaskóla í gær.  Þetta var annað umhverfisþingið síðan skólinn gerðist þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar árið 2008.  Þingum þessum er ætlað að miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og nærsamfélagsins um  umhverfismál almennt og gang mála í umhverfisfræðslu í skólanum.   

Þingin hafa tekist með miklum ágætum, bæði hafa nemendur og kennarar flutt athyglisverða fyrirlestra um verkefni sem unnin hafa verið innan skólans, og ekki síður hafa aðfengnir fyrirlesarar flutt fróðleg erindi um umhverfismál í víðara samhengi. Að þessu sinni flutti Bjarni Guðleifsson náttúrufræðingur á Möðruvöllum sérlega gott erindi um hlýnun loftslags í heiminum og sýndi fram á mikilvægi þess að allir íbúar jarðarinnar sýni ábyrga umgengni um gæði jarðarinnar.

Þá greindi Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Þingeyjarsveitar frá þeirri stefnu sem nú er ríkjandi í umhverfismálum sveitarfélagsins, m.a. hvað varðar landnýtingu samkvæmt aðalskipulagi og sorphirðu. Nemendur röktu fyrir þinggestum hvað gert hefur verið í skólanum á leiðinni til Grænfánans og Sigrún Jónsdóttir kennari fjallaði um útiskóla Stórutjarnaskóla þar sem nemendur á leik- og grunnskólastigi sameinast í fjölbreyttu námi utan dyra.

Rúsínan í pylsuendanum var rannsókn, sem nemendur gerðu á svefnvenjum sínum, en hluti af Grænfánaverkefninu er lýðheilsuþema.  Rannsóknin leiddi í ljós að nemendur Stórutjarnaskóla þurfa almennt að fara fyrr að sofa á kvöldin en niðurstöðurnar verða aðgengilegar á heimasíðu skólans fljótlega.

Nýjast