Umferðaróhöpp á Víkurskarði og Svalbarðsströnd

Flutningabíll valt út af veginum á Víkurskarði í gær. Ökumaðurinn, sem var einn í bílnum var fluttur til skoðunar á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri, en hann mun hafa sloppið með skrekkinn. Bíllinn var á leið til Egilsstaða frá Akureyri en ástæða þess að hann fór út af veginum er ókunn en stíf norðvestanátt var í gærdag á svæðinu, éljagangur og hálka.  


Flutningabíllinn var með tengivagn og leikur grunur á að hann hafi mögulega farið af stað. Bíllinn liggur nú um 50 metra frá veginum, efst austan megin í Víkurskarði. Ekki er vitað hvort hann er í ökufæru ástandi en stefnt er að því að ná í bílinn í dag, segir á visir.is.

Þá hafnaði fólksbíll utan vegar á Svalbarðsströnd gærkvöld og valt tvær veltur. Tvær stúlkur, sem voru farþegar í bílnum, voru fluttar á sjúkrahús til skoðunar. Ekki er vitað um meiðsli þeirra, en bíllinn er lítið skemmdur. Orsök slyssins er ókunn en mikil hálka er á veginum á þessum slóðum og veður slæmt, segir á ruv.is.

Nýjast