17. nóvember, 2007 - 21:06
Tugmilljóna króna tjón varð í miklum eldsvoða á bænum Stærra Árskógi á Árskógsströnd seinnipartinn í dag. Fjós og fleiri byggingar eyðlögðust í eldinum og fjölmargar skepnur drápust. Að sögn Ingimars Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóra á Akureyri var slökkvistarfi að ljúka en um 30 slökkviliðsmenn frá Dalvík og Akureyri unnu að slökkvistarfinu, auk félaga í björgunarsveitinni á Árskógsströnd. Hann sagði að aðstæður hafi verið erfiðar enda mikill eldur og kolvitlaust veður á Ströndinni. "Það er ekki oft sem maður hefur þurft að berja klaka af gleraugunum sínum." Engin slys urðu á fólki en bóndinn á bænum gekk nærri sér við að reyna að bjarga skepnum. Ingimar sagði að svo virtist sem eldurinn hafi komið upp í millibyggingu og læst sig í fjósið og aðra áfasta byggingu. Hann sagði að um 200 gripir hefðu verið í byggingunum en flestir drepist. "Við sáum um 30-40 gripi á lífi fyrir utan byggingarnar en annars var mjög erfitt að sjá þarna til vegna myrkurs og slæms veðurs," sagði Ingimar nú fyrir stundu á leið af vettvangi. Talsvert langt var í vatn og þegar Slökkviliðið á Akureyri kom á staðinn var dælubíll frá liðinu settur í að dæla vatni frá brunahana við bifreiðaverkstæði við Litla Árskóg, um 6-800 m leið, á eldstað. Tilkynning um eldinn barst um kl. 17 í dag.