Tugmilljarða króna fjárfestingar á Akureyri

Ásthildur á Haustráðstefnu Advania
Ásthildur á Haustráðstefnu Advania

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var meðal framsögumanna á Haustráðstefnu Advania í Reykjavík í gær. Þar fjallaði hún um þau gríðarlegu áhrif sem uppbygging gagnavers atNorth á Akureyri og fjárfestingar þess hafa haft í för með sér fyrir samfélagið.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var meðal framsögumanna á Haustráðstefnu Advania í Reykjavík í gær. Þar fjallaði hún um þau gríðarlegu áhrif sem uppbygging gagnavers atNorth á Akureyri og fjárfestingar þess hafa haft í för með sér fyrir samfélagið.

Ásthildur sagði meðal annars að innan tíðar muni fjárfestingar atNorth í bænum nema um 16 milljörðum króna og verði áður en yfir lýkur um 30 milljarðar. Þar fyrir utan væri allur sá tækjabúnaður og tölvur sem notaðar eru í gagnaverinu 100-150 milljarða króna virði. Til samanburðar nefndi hún að Kísilverið á Bakka hafi kostað um 40 milljarða, Vaðlaheiðargöng um 16 milljarða og áætlað væri að ný þjóðarhöll í Reykjavík muni kosta á bilinu 14 til 15 milljarða króna.

Hún nefndi einnig að afleidd áhrif af uppbygginu atNorth væru afar mikil fyrir alls kyns verktaka, iðnaðarmenn og tæknimenntað fólk á Akureyri. Þar fyrir utan væru óbein áhrif af uppbyggingunni umtalsverð fyrir bæjarbúa og samfélagið í heild. Gagnaverið gæti haft mikil áhrif á skólasamfélagið á Akureyri hvað tæknimenntun varðar og sömuleiðis renni gagnaverið styrkari stoðum undir millilandaflugið um Akureyrarflugvöll því starfsfólk gagnaversins notfæri sér töluvert þá þjónustu. Sömuleiðis mætti nefna óbein áhrif á hótelrekstur og veitingahús ásamt með fleiru. Áhrifin hríslist því um allt samfélagið.

Loks nefndi Ásthildur samninginn sem undirritaður var síðasta sumar um nýtingu glatvarma frá atNorth endurgjaldslaust til samfélagslegra verkefna. „Fyrsta skrefið á þeirri vegferð er að nota varmann til að hita upp gróðurhús á Hlíðarvöllum í námunda við atNorth, þar sem nemendur á grunn- og framhaldsskólaaldri geta unnið að vistvænni ræktun grænmetis og ávaxta í tæknivæddu lærdómsumhverfi. Vonir standa til að gróðurhúsið verði tilbúið til notkunar í haust eða snemma í vetur og að ungir Akureyringar fái þá tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki,“ sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri á Haustráðstefnu Advania í Reykjavík í gær.

Það var akureyri.is sem fyrst sagði frá.

Nýjast