Tryllt áhorfendasýning á Rocky Horror í Hofi

Mikil stemmning var í Hofi síðastliðið föstudagskvöld þegar áhorfendasýning var haldin á söngleik Leikfélags Akureyrar - Rocky Horror. Meðal áhorfenda var hinn eini sanni Páll Óskar ásamt fleiri MH-ingum, sem héldu fyrir skemmstu upp á 20 ára Rocky Horror-sýningarafmæli sitt. Það fór vel á með MH-ingum og Rocky Horror liði Leikfélagsins þegar þau hittust að tjaldabaki að lokinni sýningu.  

Þar var einnig vinningshafinn í Bylgjuleik Leikfélagsins, Kristín Lind, en hún vann helgarferð til Akureyrar á Rocky Horror; flug með Flugfélagi Íslands, gistingu á Hótel KEA, bílaleigubíl frá Bílaleigu Akureyrar og út að borða á La Vita Bella fyrir tvo ásamt baksviðspassa að sýningu lokinni. ,, Sýningin var algjörlega mögnuð og ferðin hreint stórkostleg, besta frí sem við höfum fengið í langan tíma," sagði Kristín Lind að sýningu lokinni. Allra síðasta sýning á Rocky Horror er um næstu helgi þann 4. mars og enn eru örfá sæti laus.

Æfingar standa nú yfir á næstu sýningu sem frumsýnd verður þann 11. mars í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar og heitir Farsæll farsi. Farsæll farsi er gamanleikur eins og þeir gerast bestir. Framhjáhald, feluleikur, misskilningur og allrahanda ólíkindatól. Öll hlutverkin eru leikin af tveimur leikurum sem eykur enn á spennuna.

Nýjast