Árni Þór Theodorsson er topp 5. lista-maður vikunnar, en hann hefur gert lista yfir fimm uppáhalds heimildamyndirnar sínar. Árni fæddist á sjúkrahúsinu á Akureyri þann 8. október 1986 sem staðsetur hann hættulega nálægt fertugs aldrinum. Hann segist vera búinn að taka tennur, missa tennur, detta og standa. Hann býr með Birnu Pétursdóttur sjónvarpsstjörnu á N4. „Ég er svo heppinn að hún er unnusta mín og svo á ég bestu dóttur sem veröldin hefur getið af sér. Hún heitir Astrid Ísafold og er þriggja ára. Hún kann að skrifa stafinn sinn,“ segir Árni. Hann lærði kvikmyndagerð í New York 2008-2009. Hann hefur starfað á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri undanfarin 3-4 ár við ýmiskonar þátta,- auglýsinga- og myndbandsgerð.
„Ég elska bíómyndir og tónlist og mat... mikið!“ Segir Árni sem vill skora á mág sinn Magnús Pétur Guðmundsson sem vinnur hjá Þekkingu að koma með næsta topp 5 lista. Árni vill fá að vita fimm uppáhalds skyndibita Magnúsar. Hér er listinn hans Árna:
Þessi heimildamynd fjallar um kynferðisofbeldi innan bandaríska hersins og er af nógu að taka þar. Myndin er byggð upp á viðtölum við fórnarlömb (bæði karlar og konur) að mestu leyti, sem hafa mátt þola ofbeldi innan hersins, bæði af hálfu annarra hermanna, en ekki síður af dómskerfi hersins, sem vill ekki viðurkenna þetta mjög stóra vandamál innan allra deilda bandaríkjahers. Þessi mynd stingur á stórt og ljótt graftarkýli sem er mikilvægt að tæma vel, og þeim tekst það, þú átt ekki eftir að líta bandaríkjaher sömu augum eftir þessa mynd, sama hvað þér fannst um hann áður.
265 dagar af klikkun við tökur á einni frægustu stríðsmynd allra tíma Apocalypse Now. Hjartaáföll, óvæntur skæruhernaður, eiturlyfjaneysla, sjálfsmorðshótanir eru allt hlutir af daglegu lífi á setti við gerð þessarar stórmyndar, sem gekk nálægt því að ganga frá Francis Ford Coppola leikstjóra og framleiðanda myndarinnar. Konan hans Eleanor Coppola var með sína eigin tökuvél á lofti og myndaði allt ferlið. Allt sem gat klikkað, klikkaði. Allt sem lagt var upp með breyttist. Leikurum var skipt út eftir mánuði í tökum, sumir leikarar mættu seint og illa og höfðu aldrei lesið orð í handritinu og almenn ringuleið virtist vera ráðandi á settinu. Það er magnað að fá að fylgjast með þessu meistarastykki verða til við jafn ómögulegar aðstæður og raunin var.
Ljóðræn, drungaleg, falleg, skrítin, skemmtileg. Allt orð sem má nota til að lýsa bæði myndinni 20.000 days on earth, og viðfangsefni myndarinnar, sjálfum Nick Cave. Þetta er reyndar ekki heimildamynd um líf og störf rokkstjörnunnar, sem betur fer. Heldur er þetta ljóðrænt portrett af manni með gríðarlegan sköpunarkraft og smá innsýn inn í hans hugarheim, sem er afar kærkomið fyrir aðdáendur söngvarans. Í myndinni sjáum við meðal annars upptökur frá síðustu plötu Cave, Push the sky away og er sérstaklega gaman að fá smá nasasjón af því ferli. Einstaklega flott myndataka og klipping gera þessa mynd að fáguðu listaverki.
Eftir snillinginn Werner Herzog, ef það má orða það þannig en þessi mynd er aðallega samansafn af myndböndum sem sérvitringurinn Timothy Treadwell tók af sjálfum sér þar sem hann bjó meðal bjarndýra í Katmai þjóðgarðinum í Alaska fylki bandaríkjanna. Werner les inná og tekur viðtöl við fólk sem þekkti Treadwell. Gríðarlega falleg mynd sem ég get horft á aftur og aftur. Ástríða, ást, líf, dauði, geðveiki og snilld.
Vissulega ekki heimildaMYND. En þótt The Jinx sé sjónvarpssería, er hún of góð til að sleppa henni af þessum lista. Hún er reyndar of góð til að hafa hana ekki í fyrsta sæti á þessum lista. Þetta eru 6 heimildaþættir sem fjalla um undarlega atburði sem allir virðast tengjast einum manni, Robert Durst. Spennuþrungi er gegnumgangandi stef í þáttunum og áður en þú veist af er einn þáttur búinn og næsti byrjaður (ef þú ert með aðgang að öllum þáttunum á einum stað, ég mæli ekki með því fyrir nokkurn mann að gera sér það að hafa ekki greiðan aðgang að næsta þætti, alltaf). Ég get ekki talað nóg um hvað mér finnst þetta góðir þættir, en ég held að ég hafi aldrei jafn spenntur beðið eftir að sjá hvernig nein mynd eða þáttur endaði.. Ef einhver er ekki búinn að horfa, horfðu... EPE