Tónlistarsveisla í Akureyrarkirkju milli jóla og nýárs

Það verður boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu í Akureyrarkirkju föstudaginn 28. desember nk. kl. 20.00, þegar stórtenórinn Kristján Jóhannsson og vinir hans og nemendur halda þar tónleika. Með Kristjáni verða þrír aðrir karlkyns stórsöngvarar, Hlöðver Sigurðsson, Valdimar Hilmarsson og Gissur Páll Gissurason. Tvær glæsilegar söngkonur verða í hópnum, Jóna Fanney Svavarsdóttir, bróðurdóttir Kristjáns, og Alexandra Rigacci - Tarling, kona Valdimars. Um undirleikinn sér sænskur píanisti sem starfar í London, Magnus Gilljam. Vikudagur heyrði í þeim Valdimari, Hlöðveri og Gissuri en þeir hafa allir verið í söngnámi hjá Kristjáni. Þeir sögu að mikill áhugi væri fyrir tónleikunum, sjálfir ætla þeir að mæta í sínu besta formi og með glæsilega efnisskrá. Var ekki annað að heyra en að þeir félagar hafi lært ýmislegt fleira en að syngja hjá meistara Kristjáni. "Þegar þrír tenórar mætast, (Kristján, Gissur og Hlöðver) er hreinlega von á náttúruhamförum," sagði Gissur kokhraustur. "Ég er nú hafður með til að halda þeim á jörðinni," sagði bassbaritóninn Valdimar og bætti við að menn væru orðnir býsna spenntir að mæta norður til að syngja.

Gissur hefur aldrei sungið á Akureyri en hlakkar mikið til, enda hefur hann heyrt af því að þar sé harðasti áheyrendahópur norðan alpafjalla. "Og vita ekki allir best um söng á Akureyri," spurði Gissur. Hlöðver hefur haldið tónleika á Akureyri, m.a. í Ketilhúsinu og hann sagði að Akureyringar vissu hvernig tenórinn á hljóma og því yrðu menn að standa undir nafni.

Valdimar er ættaður úr Höfðahverfi og margir af ættingjum hans búa á Grenivík. Sjálfur bjó hann í 10 ár á Húsavík og hann hóf sinn óperusöngferil í hjá Leikfélagi Akureyrar. Hlöðver er Siglfirðingur, hann lærði söng þar og víðar, í London og Austurríki og endaði svo hjá Kristjáni á Ítalíu líkt og Gissur og Valdimar. Gissur sagðist ekki geta státað af þessari norðlensku tengingu en taldi það ekki koma að sök, þótt hann væri ættaður að vestan og úr Flóanum. "Ég hóf þó mitt söngnám hjá Magnúsi Jónssyni frænda Kristjáns og hann var mjög öflugur. Í kjölfarið fór ég í söngskóla á Ítalíu og eftir það fór ég á flakk til að leita mér að góðum kennara til að slípa það sem hafði lært í skólanum. Á endanum varð svo Kristján fyrir valinu og hann er alveg meiriháttar kennari," sagði Gissur.

Sem fyrr segir verður boðið upp á glæsilega efnisskrá, óperuperlur, hátíðlega tónlist og eitthvað af íslenskri tónlist. Mikill áhugi er fyrir tónleikunum og þegar farið að ræða um aukatónleika.

Nýjast