Tónasmiðjan á Húsavík með stórsýningu í Heiðarbæ

Flytjendur Tónasmiðjunnar eftir æfingu á sunnudag. Myndir/Gunnar Jóhannesson.
Flytjendur Tónasmiðjunnar eftir æfingu á sunnudag. Myndir/Gunnar Jóhannesson.

Tónasmiðjan á Húsavík heldur áfram frábæru starfi sínu en á morgun sunnudag klukkan 16 verður blásið til sannkallaðrar tónlistarveislu í Heiðarbæ þegar stór hópur tónlistarfólks treður upp og rokkar gegn krabbameini. Heiðursgestur tónleikana er engin önnur en stórstjarnan, Andrea Gylfadóttir.

Gefandi starf

Tónasmiðjan er skapandi starf fyrir fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á tómstundum, tónlist, söng og menningu. „Við vinnum saman í hóp, einstaklingsmiðað og sköpum saman eitthvað lifandi og skemmtilegt þar sem allir skipta máli,“ segir Harpa Steingrímsdóttir en hún hefur um árabil staðið í stafni þessa merka framtaks sem Tónasmiðjan er ásamt frænda sínum Elvari Bragasyni.

Yfirskrift tónleikasýningarinnar er Ljós í myrkri - ROKKUM gegn krabbameini. Veislan hefst stundvíslega klukkan 16. í Heiðarbæ, sunnudaginn 25. maí.

Spennandi dagskrá

Harpa var rétt kominn af æfingu þegar blaðamaður heyrði í henni á sunnudagskvöld sl. Hún sagði að um þessar mundir væri magnaður hópur flytjenda á ýmsum aldri, einsöngvarar, bakraddir og hljómsveit ásamt heiðursgesti að vinna að þessari glæsilegu tónleikasýningu.

„Þar munum við flytja lög eftir snillinga eins og Todmobile, Trúbrot, Bryan Adams, Metallica, U2, Sálina hans Jóns míns, Bonnie Tyler og marga fleiri,“ segir Harpa og bætir við að Andrea Gylfa hafi verið með þeim á æfingu og verið ekkert minna en stórkostleg. „Það er svo ótrúlega dýrmætt að fá að troða upp með þessari goðsögn, ekki síst fyrir krakkana sem taka þátt í þessu með okkur.“

Gefa til samfélagsins

Það er ekki nóg með að Tónasmiðjan hafi um árabil gefið fólki á öllum aldri tækifæri til að standa í sviðsljósinu, þroskast í list sinni og gæða um leið samfélagið dýrmætri menningu; þá hefur Tónasmiðjan ætíð látið ágóða sinna tónleika renna til góðra málefna. Að þessu sinni rennur ágóði til Krabbameinsfélags Þingeyinga og til Ljóssins endurhæfingar og stuðningsmiðstöðvar.

„Við erum með þrjár stórar tónleikasýningar á ári auk smærri tónleika. Við erum alltaf með stóra vorsýningu í maí, svo erum við með 10. september á alþjóðlegum forvarnadegi sjálfsvíga stóra sýningu og þá erum við alltaf með jólatónleika sem eru að verða stórir og flottir hjá okkur enda höfum við þurft að flytja þá yfir í Íþróttahöllina,“ segir Harpa.

Fyrsta sinn í Heiðarbæ

Þetta er í fyrsta sinn sem Tónasmiðjan heldur stóra tónleikasýningu í Heiðarbæ og kveðst Harpa vera gríðarlega spennt fyrir því.

„Við ákváðum að prófa að gera eitthvað öðruvísi núna. Vertarnir þar hafa tekið okkur með kostum og kjörum og okkur líst gríðarlega vel á að vera með vortónleikasýningu í sveitinni,“ segir Harpa og bætir við að hópurinn sé að verða vel samstilltur og tilhlökkunin sé áþreifanleg.

„Við erum aldrei undir 30 manns í Tónasmiðjunni og þetta er fólk á öllum aldri, ellismellir og niður í grunnskólabörn. Þetta verður svakaleg sýning hjá okkur og það ætti engin að láta hana fram hjá sér fara,“ segir Harpa að lokum.

 

Nýjast