Tökum þetta í þremur leikjum

Úrslitakeppnin á Íslandsmóti kvenna í íshokkí hefst í dag en það er Skautafélag Akureyrar og Björninn sem berjast um titilinn. Fyrsti leikurinn fer fram á heimavelli SA og hefst viðureignin kl. 16:00 í Skautahöllinni. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari. SA hefur titil að verja og fyrirliði liðsins, Guðrún Kristín Blöndal, er bjartsýn á að liðinu takist að verja titilinn. „Við ætlum að taka þetta í þremur leikjum. Þó að liðin séu nokkuð jöfn og sigrarnir hafi skipst á milli liðanna í vetur, að þá höfum við meiri breidd. Hins vegar gæti þetta ráðist á vörninni hjá okkur því Björninn hefur á að skipa landsliðsmarkvörðum og standa okkur framar á því sviði,” segir Guðrún.

Nýjast