Tímamót hjá Sigríði Huld skólameistara VMA

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA Mynd: Hilmar Friðjónsson
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA Mynd: Hilmar Friðjónsson

Eins og fram hefur komið lætur Sigríður Huld Jónsdóttir af embætti skólameistara við Verkmenntaskólan á Akureyri mánaðarmótin júli, ágúst n.k. Heimasíða VMA tók viðtal við hana að þessu tilefni sem vefur Vikublaðsins fékk góðfúslegt leyfi til að birta hér.

Á morgun, laugardaginn 24. maí, brautskráir Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari nítjánda nemendahópinn frá Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þetta verður síðasta brautskráning hennar því hún hefur sagt starfi sínu lausu og mun formlega láta af störfum 31. júlí nk. Hún verður þó áfram í skólanum fram í ágúst til þess að ganga frá ýmsum lausum endum og leggja eftirmanni sínum lið fyrstu vikurnar í starfi.

Sigríður Huld stýrði sínum síðasta starfsmannafundi í VMA í gær og af því tilefni brá Hilmar Friðjónsson á leik og tók þessar skemmtilegu drónamyndir af starfsfólki VMA mynda hjarta við skólann.

Hjúkrunarfræðinám og kennsluréttindi

Tími Sigríðar Huldar í VMA spannar ríflega tvo áratugi sem nemandi, stundakennari, aðstoðarskólameistari og skólameistari. Hér eru nokkrar myndir sem Hilmar Friðjónsson hefur tekið af henni frá 2010 til 2025.

Sigríður Huld er fædd í Reykjavík árið 1969, ólst að mestu upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunnskóla. Tók fyrstu framhaldsskólaönnina í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Króknum en var haustönn 1987 í VMA. Fór á vorönn 1988 sem skiptinemi til Ástralíu en kom aftur til náms í VMA haustið 1991 og lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut vorið 1993. Þá lá leiðin í Háskólann á Akureyri þar sem hjúkrunarfræðin varð fyrir valinu. Sigríður Huld rifjar upp að hjúkrunarfræðin hafi ekki verið henni ofarlega í huga á yngri árum. En hún vildi búa áfram á Akureyri og hjúkrunarfræðin var sú námsgrein í Háskólanum á Akureyri sem henni leist best á. Það sem einnig ýtti undir val á hjúkrunarfræðinni var jákvæð reynsla af vinnu á dvalarheimili aldraðra á Dalvík og einnig sumarvinna við dagþjálfun fatlaðra á Sólborg á Akureyri. Til undirbúnings fyrir hjúkrunarfræðinámið bætti hún við sig áföngum í líffræði og lífeðlisfræði á síðasta ári sínu í VMA.

Hjúkrunarfræðináminu lauk Sigríður Huld vorið 1998 og starfaði eftir það m.a. á kvennadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri - FSA (eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hét þá) og velti um tíma fyrir sér að læra ljósmóðurfræði. Af því varð þó ekki. Þess í stað fór hún í kennslufræðina í Háskólanum á Akureyri, sem þá var eins árs nám, til þess að ná sér í kennsluréttindi, og útskrifaðist með þau árið 2000. Á þessum tíma var Sigríður Huld m.a. verkefnastjóri fræðslumála á FSA auk þess að starfa við hjúkrun á kvennadeild FSA.

Stundakennsla á sjúkraliðabraut

Í júní 2003 fékk Sigríður Huld símhringingu frá Hálfdáni Örnólfssyni, sem þá var aðstoðarskólameistari VMA. Hún var þá með syni sínum á pollamóti í fótbolta í Vestmannaeyjum. Hálfdán var að leita að hjúkrunarfræðingi til að kenna áfanga í stundakennslu á sjúkraliðabraut skólans og halda utan um verknám sjúkraliðanema. Sigríður Huld ákvað að slá til og hóf kennslu sjúkraliða haustið 2003 í stundakennslu en eftir sem áður starfaði hún sem hjúkrunarfræðngur á FSA. Í stundakennslunni var hún áfram til vors 2006 og líkaði vel.

Staða áfangastjóra í VMA var síðan auglýst laus til umsóknar og sótti Sigríður Huld um en var ekki ráðin. Ekki löngu síðar ákvað Hálfdán Örnólfsson að hætta sem aðstoðarskólameistari og var Sigríður Huld hvött til að sækja um stöðuna.

Út í djúpu laugina

„Það var hnippt í mig og ég spurð hvort ég vildi ekki prófa að sækja um stöðu aðstoðarskólameistara. Ég lét til leiðast og var ráðin. Þetta bara gerðist, ég hafði aldrei haft neinar hugmyndir um stjórnunarstarf í framhaldsskóla. En í gegnum tíðina hef ég verið óhrædd að taka slíkar ákvarðanir, að láta reyna á hlutina. Ef maður á annað borð treystir sér í að taka ákveðin verkefni eða starf að sér finnst mér að ekki eigi að ofhugsa hlutina og bíða. En að sjálfsögðu verður maður að þekkja sín takmörk og hafa raunsæi að leiðarljósi,“ segir Sigríður Huld.

Aðstoðarskólameistari VMA var hún frá og með hausti 2006 og gegndi því starfi til ársloka 2015, við hlið Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara. Fyrstu þrjú árin kenndi hún áfram á sjúkraliðabrautinni við hliðar við aðstoðarskólameistarastarfið.

Sigríður Huld leysti Hjalta Jón af sem skólameistari í námsleyfi hans skólaárið 2011-2012 og fékk þá smjörþefinn af starfinu. Þegar hann síðan ákvað að láta af starfi skólameistara í árslok 2015 og var skipaður skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík frá árbyrjun 2016 var Sigríður Huld ráðin í stöðu skólameistara til fimm ára. Skólaárið 2019-2020 gegndi Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari starfi skólameistara í námsleyfi Sigríðar Huldar en hún var síðan skipuð skólameistari í önnur fimm ár og átti skipunartímanum að ljúka um næstu áramót. Hún tilkynnti hins vegar strax í upphafi þessa skólaárs að hún ætlaði ekki að starfa til loka skipunartímans, eðlilegra væri að eftirmaður hennar tæki við í byrjun skólaárs en ekki á því miðju.

Úr aðstoðarskólameistaranum í skólameistarann

„Það reyndist mér ekki svo erfitt að setja mig inn í starf aðstoðarskólameistara haustið 2006. Hér var reynslumikið fólk í stjórnun sem þekkti þetta út og inn, Hjalti Jón skólameistari, kennslu- og áfangastjórarnir og Hálfdán, fráfarandi aðstoðarskólameistari, sem kenndi hér áfram og hjá honum gat ég alltaf leitað ráða ef á þurfti að halda.

Vorið 2006 sat ég með stjórnendum skólans síðasta gæðaráðsfundinn áður en hann fékk gæðavottun. Eitt og annað í gæðamálunum kannaðist ég við frá vinnu minni á FSA. Á þessum fundi var einnig farið yfir ýmislegt varðandi töflugerð og kennsluskiptingu. Þarna fékk ég í æð heilmikið til þess að vinna úr og setja mig inn í.

Auðvitað var fjölmargt einfaldara í stjórnun skólans en nú er og ég vil halda því fram að nú séu á borði stjórnenda framhaldsskólanna mun flóknari verkefni en voru þegar ég hóf hér störf sem aðstoðarskólameistari fyrir um tuttugu árum. En að sama skapi eru hlutirnir á flestan hátt betri gagnvart nemendum.

Þegar Hjalti Jón ákvað að hætta störfum sem skólameistari gaf ég mér góðan tíma til þess að hugsa hvort ég ætti að sækja um. Ég hafði leyst hann af í eitt skólaár, þekkti því starfið bærilega vel og vissi hvaða verkefni myndu bíða mín og að sama skapi hvaða verkefni ég myndi missa ef ég hætti sem aðstoðarskólameistari. Niðurstaða mín var sú að sækja um stöðuna, sem ég síðan fékk.“

Starf skólameistara

En hvernig lýsir Sigríður Huld starfi skólameistara VMA?

„Það eru engir tveir dagar eins og marga daga kemst ég ekki í nein af þeim verkefnum sem ég hafði ætlað að vinna þá daga, þá hefur eitthvað óvænt komið upp sem hefur þurft að leysa úr.

Starf skólameistara felst fyrst og fremst í að vinna með fólki og ég hef alltaf haft að leiðarljósi að hugsa hlutina út frá hagsmunum nemenda númer eitt, tvö og þrjú – hvað sé best fyrir nemendur og hvernig við skilum sem bestu námi fyrir þá til þess að taka með sér út í lífið, á vinnumarkaðinn eða til frekara náms.

Auðvitað snýr starf skólameistara einnig mikið að rekstri skólans og fjármálum en því miður fer of mikinn tími í þann hluta starfsins. Skil á gögnum til ráðuneytis eru líka á borði skólameistara, fundir með ráðuneytinu og öðrum sem tengjast þessum skóla því þeir angar eru vissulega fjölmargir vegna þess hversu fjölbreyttur og stór skólinn er með allar þessar verklegu og bóklegu brautir. Mannauðsmál taka líka mikinn tíma, t.d. varðandi ráðningar, kjarasamningsmál, launavinnslu, stofnanasamninga o.fl. Að ógleymdu innra starfi, þar á meðal samskipti við samstarfsfólk og nemendafélagið, kynningarmál o.fl.

Ég hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma til þess að fara reglulega inn á námsbrautirnar, kíkja í kennslustundir og hitta nemendur og kennara. Og ég hefði líka gjarnan viljað hafa meiri tíma til þess að þróa skólastarfið, t.d. með því að kynna mér meira hvernig er staðið að hlutunum í öðrum skólum hér á landi og erlendis. Tími til þróunarvinnu hefur því miður verið allt of lítill. Þó vil ég taka fram að það var mjög jákvætt skref þegar farsældarlögin voru innleidd, sem án efa hafa tryggt nemendum betri þjónustu og stuðning í lífinu. Í tengslum við þá innleiðingu skapaðist umræða um stöðu ungs fólks í samfélaginu sem var mjög jákvætt og gott.

Það eru alltaf mörg aðkallandi verkefni á borði skólameistara og þau eru fljót að hlaðast upp ef hin venjubundna dagskrá riðlast mikið. Ég er fyrir löngu hætt að láta það hafa áhrif á mig og sef ágætlega þó ég komist ekki í gegnum verkefnastaflann. En auðvitað eru alltaf einhver verkefni erfiðari viðfangs en önnur og taka því meira á.

Ef út í það er farið er skólameistari alltaf í vinnunni – að degi sem nóttu – en ég hef haft þá reglu að eftir að ég kem heim úr vinnunni opna ég ekki tölvupóstinn. Ef þarf að ná í mig hringir fólk í mig, en sannast sagna er ekki mikið um það. Mér hefur því gengið ágætlega að skilja að vinnuna og einkalífið og besta leiðin til þess að hlaða batteríin hefur mér reynst að skjótast í sumarbústaðinn okkar, sem er í landi Brimness í Skagafirði.“

Darraðardansinn um mögulega sameiningu MA og VMA

Það er gömul saga og ný að Verkmenntaskólinn og raunar fjölmargir aðrir framhaldsskólar hafa til fjölda ára glímt við erfiðan rekstur. Sigríður Huld segir að auðveldasta leiðin til að bregðast við þessu hefði verið að draga starfsemi skólans, sem er stærsti framhaldsskólinn utan höfuðborgarsvæðisins, verulega saman en það hafi ekki komið til greina enda sé hlutverk hans á þessu svæði óumdeilt, hann sé einfaldlega afar mikilvægur hlekkur í menntun ungs fólks á upptökusvæði skólans og víðar. Ekki sé sjálfgefið að bjóða upp á verk- og starfsnám í mörgum frekar fámennum greinum, sem sé eðli málsins samkvæmt hlutfallslega mun dýrara en bóknám, en Verkmenntaskólinn líti á það sem skyldu sína til þess að styðja við og efla faglegt starf á svæðinu.

„Ég á mér þó ósk að Verkmenntaskólinn muni áfram vaxa og dafna í sínu nærsamfélagi. Það er mikilvægt að standa vörð um það nám sem er í boði hér á svæðinu. Þetta segi ég vegna þess að því miður er ástæða til þess að óttast að námstækifærum ungs fólks á þessu svæði – og þá er ég ekki bara að tala um Verkmenntaskólann – muni fækka á komandi árum. Ástæðan er einfaldlega sú að nemendum mun fækka í framtíðinni. Árgangurinn sem kemur inn í framhaldsskólana núna í haust og eftir rúmt ár eru stórir en síðan verður veruleg fækkun ár frá ári.

Eitt af þeim málum sem upp úr standa í starfi mínu sem skólameistari var sá darraðardans sem varð vegna umræðu um mögulega sameiningu MA og VMA. Ég hef sagt að það urðu mér mikil vonbrigði að ekki skyldi vera pólitískt þor og vilji til þess að ljúka þessu máli með sameiningu því ég er sannfærð um að það er það eina rétta. Auðvitað hafði fólk sínar skoðanir með eða á móti þessari hugmynd en út frá þeirri þekkingu sem ég hef á því hvernig unnt sé að halda úti góðu og fjölbreyttu námsframboði fyrir nemendur er ég sannfærð um að það hefði verið betri kostur að hafa einn öflugan framhaldsskóla á Akureyri. Ég tel að það hefði vel verið hægt að koma á fót einum slíkum öflugum framhaldskóla á Akureyri á grunni tveggja eldri skóla og sérkenni þeirra beggja hefðu getað haldið sér eftir sem áður, alveg eins og það tókst mjög vel fyrir rúmum fjörutíu árum að steypa saman fjórum skólum og námsbrautum og setja á stofn Verkmenntaskólann á Akureyri. Það gleymist oft að VMA varð ekki til úr engu, grunnur hans voru eldri skólar og námsbrautir hér á Akureyri. Ofan á þann grunn hefur síðan verið byggt síðustu fjörutíu árin.

Umræðan í samfélaginu um þessa mögulegu sameiningu MA og VMA snerist um allt aðra hluti en málið í raun snýst um og hún endurspeglaði vel að margir halda að framhaldsskólar í dag séu eins og þeir voru fyrir fimmtíu árum. En það er hreint ekki svo, veruleikinn er allt annar.

Þó svo að ekki hafi verið pólitískt þor til þess að taka þetta skref til enda í þessari lotu er ég sannfærð um að þetta mun koma aftur upp á borðið, spurningin er bara hvenær það verður og það á ekki bara við um MA og VMA, það verður að mínu mati að eiga sér stað heildar endurskoðun á framhaldsskólakerfinu á Íslandi.

Margir trúa því ekki enn hversu mikil nemendafækkun blasir við í framtíðinni í árgöngum. Við sem höfum undanfarin ár staðið í rekstri framhaldsskólanna hér á Akureyri - og það sama á við um stjórnendur margra annarra framhaldsskóla - vitum hversu erfiður þessi rekstur hefur verið og það mun bara harðna enn frekar á dalnum að óbreyttu fyrirkomulagi í framhaldsskólakerfinu eftir 4-5 ár þegar nemendafækkunin verður komin fram af fullum þunga. Þá verður verulega erfitt að reka tvo framhaldsskóla á Akureyri og það sama á við um rekstur miklu fleiri framhaldsskóla. Því kæmi mér ekki á óvart að pólitíkin þurfi að taka stórar og óhjákvæmilegar ákvarðanir.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er mjög snúið mál, þetta er skólapólitískt mál, þetta er flokkapólitískt mál og þetta er byggðpólitískt mál. En við komumst ekki hjá því að taka samtalið um hvernig við sjáum hlutina til framtíðar, út frá hagsmunum nemenda, því staðreyndirnar eru á borðinu og út frá þeim verðum við að vinna og taka stefnumarkandi ákvarðanir til framtíðar. Í mínum huga á þessi umræða ekki að snúast um skóla heldur nám, hvernig við tryggjum sem best nám fyrir nemendur og námsframboð.

Almennt er umræðan um framhaldsskólann hverfandi lítil í samfélaginu og pólitíkinni, þ.e. hvernig við viljum sjá framhaldsskólana þróast og hvernig námið eigi að vera til framtíðar á framhaldsskólastiginu. Um þetta var tekin umræða á sínum tíma, fyrir hálfum öðrum áratug eða svo þegar lögum um framhaldsskóla var breytt, en síðan hefur lítið gerst. Auðvitað tekur framhaldskólinn breytingum með breyttu samfélagi, nemendahópurinn er öðruvísi en fyrir fimm árum að ég ekki tali um fyrir tuttugu árum. En heildarsamtalið vantar og að mínu mati skortir pólitíska forystu fyrir framhaldsskólastigið. Það voru ýmis mál komin af stað í tíð fyrri barna- og menntamálaráðherra en ég veit ekki hvar þau eru nú stödd í ráðuneytinu.

Eitt af því sem lengi hefur verið í umræðunni og er brýnt að þoka áfram er endurskoðun iðn- og starfsnáms, til dæmis varðandi utanumhald þess og sveinspróf. Að mínu mati eru sveinspróf tímaskekkja, það á að treysta skólunum og atvinnulífinu fyrir námi nemenda og leggja sveinsprófin af. En því miður hefur umræða um þetta aldrei komist af alvöru upp á borðið.

Ég hef aldrei legið á skoðunum mínum á ýmsu er lýtur að framhaldsskólakerfinu en að sama skapi virði ég að sjálfsögðu að það séu ekki allir á sömu skoðun og ég. Ég vil sjá sameiningar framhaldsskóla en ég virði skoðanir þeirra sem vilja halda í alla þá ríflega 30 framhaldsskóla sem eru starfandi á Íslandi. Ég hef verið ófeimin að segja að með núverandi fyrirkomulagi er ýtt undir samkeppni um nemendur sem oft og tíðum bitnar á náminu og námsframboði,“ segir Sigríður Huld.

Sátt við tímann í VMA

„Ég er mjög sátt við tímann minn hér sem aðstoðarskólameistari og skólameistari. Upp úr stendur allt það góða fólk, bæði starfsfólk og nemendur, sem ég hef kynnst og unnið með. Starfsandinn hér hefur alla tíð verið einstaklega góður. Ánægjulegustu stundir mínar sem skólameistari hafa tvímælalaust verið brautskráningarnar. Mér finnst alltaf jafn ánægjulegt að upplifa þá einlægu gleði sem skín úr andlitum brautskráningarnema þegar þeir uppskera og taka við skírteinum sínum.

Auðvitað hefur starfstími minn hér ekki alltaf verið dans á rósum. Upp í hugann koma tvö tímabil sem reyndu virkilega á. Í fyrsta lagi eftir efnahagshrunið þegar skólar landsins, þar með talinn Verkmenntaskólinn, fylltust af nemendum. Þá voru um 1350 nemendur í VMA. Það var virkilega flókið verkefni en gekk engu að síður ótrúlega vel. Annað flókið og krefjandi verkefni var svo Covid-tíminn, sem liggur við að maður hafi nú gleymt eða vilji í það minnsta gleyma. Það var aðdáunarvert hvernig starfsfólki og nemendum tókst að vinna úr þeirri stöðu og skólinn fékk miklar þakkir frá forráðamönnum nemenda fyrir hvernig við héldum utan um þá við þessar erfiðu og fordæmalausu aðstæður.

Bæði þessi verkefni hér í skólanum, eftirhrunsárin og Covid-tíminn, hafði í för með sér verulega aukið álag á okkur stjórnendur og allt starfsfólk skólans. En þetta voru verkefni sem þurfti að vinna og ég hef alltaf þrifist á því að hafa mikið að gera, hvort sem það hefur verið hér í VMA, í hjúkruninni hér á árum áður eða enn lengra til baka í fortíðinni í afgreiðslustörfum, fiskvinnu eða í sveitinni forðum daga á Ytra-Skörðugili og Brimnesi í Skagafirði.

Ég neita því ekki að tilfinningarnar sem bærast með mér núna þegar styttist í starfslok mín hér í VMA eru blendnar. Ég vil taka fram að ég er ekki að hætta vegna þess að ég sé búin að fá nóg og sé að flýja starfið eða hafi hröklast úr því. Fyrir fimm árum velti ég fyrir mér hvort ég ætti að sækjast eftir skipun í starf skólameistara í önnur fimm ár. Niðurstaða mín þá var að sækjast eftir öðrum fimm árum en jafnframt var alveg klárt í mínum huga að þar með setti ég punktinn aftan við þennan kafla, hvorki væri gott fyrir mig né skólann að ég gegndi starfinu lengur. Ég er sátt við að hafa tekið ákvörðun um að hætta en svo mikið er víst að ég á eftir að sakna mjög þessa frábæra vinnustaðar – vinnunnar, samstarfsfólksins og nemenda,“ segir Sigríður Huld.

Hvað er framundan?

En hvað tekur við hjá Sigríði Huld, hefur hún fundið sér nýjan starfsvettvang? Ekki segir hún svo vera, það verði bara að koma í ljós í fyllingu tímans, allt sé opið í þeim efnum.

„Kannski fer ég bara til útlanda til þess að passa hunda eða gerist sauðfjárbóndi, hver veit. En að öllu gríni slepptu er ég ekki farin að leita mér að vinnu. Ég horfi vissulega á atvinnuauglýsingar en enn sem komið er hefur ekki neitt komið upp sem heillar mig. Ég er opin fyrir ýmsu og veit í það minnsta að ég vil hafa mikið að gera í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég vil ekki útiloka þann möguleika að vinna áfram í stjórnun framhaldsskóla en ég myndi ekki fara í hvaða skóla sem er, hann yrði að vera bærilega stór og krefjandi. Ég sé ekki fyrir mér að fara aftur í kennslu á framhaldsskólastigi því ég held að það sé ekki góð hugmynd að fyrrverandi skólameistari sé í kennarahópnum. Miklu frekar gæti ég hugsað mér að starfa aftur sem hjúkrunarfræðingur. Til þess þyrfti ég þó að afla mér einhverrar endurmenntunar enda langt um liðið síðan ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur. En almennt séð er ég ekkert stressuð yfir því að ég fái ekki eitthvað að gera eftir að ég hætti hér,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir.

Nýjast