Tímabundnir erfiðleikar en ekki viðvarandi

Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandahrepps var samþykkt eftir síðari umræðu á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku, Samkvæmt henni er áætlað að skatttekjur verði 120,7 m.kr., framlög jöfnunarsjóðs um 60 m.kr og aðrar tekjur 23,4 m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir jákvæðir um 8,1 m.kr. Gjöld eru áætluð 220,7. Rekstrarafkoman verður því neikvæð um 8,5 milljónir króna.  

Jón Hrói Finnsson sveitarstjóri segir að búist sé við að tekjur sveitarfélagsins dragist saman á næsta ári, útsvarstekjur verði minni en áður og það sama gildi um framlög Jöfnunarsjóðs. Því þurfi að mæta og er það gert m.a. með hækkun fasteignaskatts. Sorphirðugjöld hækka einnig, enda búist við að kostnaður af sorpförgun aukist umtalsvert. „Við höfum boðið upp á ókeypis skólamáltíðir í grunn- og leikskóla undanfarin ár og ákveðið var að halda því áfram að minnsta kosti út þetta skólaár.  Ekki verða heldur breytingar varðandi frístundakort fyrir börn og ungmenni til að stunda íþrótta- og tómstundastarf. Þannig höldum við þessum þjónustuþáttum sem varða fjölskylduna óbreyttum inni. Loks verða tekjumörk afslátta vegna fasteignagjalda þau sömu og verið hafa" segir Jón Hrói.

Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verða svipaðar og verið hefur undanfarin ár, en ráðgert er að verja um 20 milljónum króna til fjárfestinga.  „Við förum ekki út í stórar nýjar framkvæmdir á næsta ári, en klárum þær framkvæmdir sem hófust á þessu ári" segir Jón Hrói.

Gert er ráð fyrir að á næsta ári verði lán að upphæð 16,5 milljónir króna greidd upp, en Jón Hrói segir að sveitarfélagið eigi peninga í sjóði og þar sem vextir af innistæðum fari snarlega minnkandi þyki skynsamlegra að greiða lánin upp.  „Vextir hafa lækkað þannig að það er ekki eins hagstætt og áður að eiga peninga á reikningum" segir Jón Hrói.  Aftur á móti sé sveitarfélagið vel í stakk búið að taka á þeim halla sem verður á rekstrinum á næsta ári þar sem það eigi fé í sjóði.  „En við beinum þeim tilmælum til stjórnenda stofnana sveitarfélagsins að þeir gæti ítrasta aðhalds í reksti.  Við getum mætt þessum hallarekstri á næsta ári og vonum að um tímabundna erfiðleika sé að ræða, en ekki viðvarandi."

Nýjast