Oddur Helgi Halldórsson L-lista, formaður stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar, vék af fundi við umræðu og afgreiðslu þessa liðar. Sigfús Karlsson B-lista tók við fundarstjórn undir þessum lið. Þegar tilboð í verkið voru opnuð á dögunum átti fyrirtækið Hamarsfell ehf. á Reykjavík lægsta tilboð. Fyrirtækið bauð rúmar 448 milljónir króna í verkið, sem er um 89% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 502,8 milljónir króna. Alls bárust sjö tilboð í verkið frá sex aðilum en SS Byggir sendi einnig inn frávikstilboð. Fyrirtækið Eykt ehf. í Reykjavík átti næst lægsta tilboð, um 470 milljónir króna eða 93,4% af kostnaðaráætlun. Hyrna ehf. á Akureyri átti þriðja lægsta tilboð, rúmar 480,3 milljónir króna, eða 95,5%, SS Byggir ehf. á Akureyri bauð rúmar 539 milljónir króna, eða 107,2%, ARCUS ehf. í Reykjavík bauð rúmar 545 milljónir króna, eða 108,4% og Tréverk ehf. á Dalvík bauð tæpar 559 milljónir króna, eða 111% af kostnaðaráætlun.
Þegar farið var yfir tilboðin kom í ljós reikningsskekkja í tilboði SS Byggis, samkvæmt heimildum Vikudags, og lækkaði tilboð fyrirtækisins um 85 milljónir króna, úr 539 milljónum króna, í um 454 milljónir. SS Byggir átti því næst lægsta tilboðið og þar sem lægsta tilboði var hafnað, var ákveðið að ganga til samninga við SS Byggi um verkið sem fyrr segir. Stefnt er að því hefja framkvæmdir við verkið í byrjun næsta mánaðar. SS Byggir byggði 1. áfanga Naustaskóla.