Tíð innbrot í hús og bíla á Akureyri

Um 30 innbrot í hús og bíla á Akureyri hafa verið tilkynnt lögreglu á rúmum mánuði. Lögregluna grunar að ungmenni séu að verki en þjófarnir virðast ekki sækjast eftir miklum verðmætum. Lögregluna grunar að sömu aðilar séu að verki en í flestum tilvikum hafa þeir farið inn í ólæstar bifreiðar og hús.  

Tvisvar sinnum hafa þjófarnir spennt upp glugga í kjallaraíbúðum til að komast inn. Úr bílunum er aðallega stolið klinki og í íbúðarhúsum hefur verið rótað og gramsað en litlu stolið. Helst virðast þjófarnir vera á höttunum eftir peningum, en láta önnur verðmæti eins og bílageislaspilara, tölvur og myndavélar eiga sig. Lögreglan telur þetta benda til þess að um ungmenni sé að ræða. Þjófarnir hafa látið til sín taka út um allan bæ og á öllum tímum sólarhringsins. Þeir hafa farið inn í mannlaus hús á daginn og um miðjar nætur meðan heimilisfólk er sofandi. Öryggisfyrirtæki á Akureyri segjast finna fyrir aukningu í að fólk leiti til þeirra til að bæta varnir heimilisns. Lögreglan á Akureyri rannsakar málið og biður íbúa að hafa samband við lögreglu verði þeir varir við óeðlilegar mannaferðir. Þetta kemur fram á ruv.is.

Nýjast