Í dag gengu þrír leikmenn til liðs við meistaraflokk KA í knattspyrnu á lánssamningum frá Íslandsmeisturum Breiðabliks og FH, sem varð í öðru sæti Pepsi-deildarinnar á síðasta keppnistímabili. Þetta eru Blikarnir Elvar Páll Sigurðsson og Ágúst Örn Arnarson og FH-ingurinn Hafþór Þrastarson.
Þeir eru allir komnir með leikheimild með KA og munu koma við sögu þegar KA-menn taka á móti Íslandsmeisturum Blika í Lengjubikarnum í Boganum nk. sunnudag kl. 13.
Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA segir í samtali við heimasíðu félagsins vera ánægður með þessa viðbót.
„Já, ég er hæstánægður með að fá þessa stráka að láni. Þeir hafa gengið í gegnum akademíur tveggja bestu liðanna á Íslandi í dag og eru framtíðarmenn í þeim báðum. Hafþór kom mjög sterkur inn í Pepsi deildina með FH í fyrra og stóð sig feykivel. Ágúst Örn og Elvar Páll eru spennandi sóknarmenn sem Blikar binda vonir við. Báðir voru lykilmenn í mjög sterku 2.flokksliði þeirra sem var hársbreidd frá því að vinna deildina sl.haust. Í mínum huga auka þessir strákar breiddina í okkar liði og það verður mjög spennandi að sjá hvernig þeir koma út hjá okkur," segir Gunnlaugur.