Þrettándagleði Þórs slegin af vegna veðurs

Þrettándagleði Íþróttafélagsins Þórs á Akureyri sem átti að fara fram á brennustæðinu við Réttarhvamm næstkomandi fimmtudag, hefur verið slegin af. Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem hætt er við brennuna. Að sögn Sigfúsar Helgasonar formanns Þórs er það vegna veðurs sem brennan er nú slegin af, en mikið hefur snjóað í bænum upp á síðkastið og víðast hvar snjóþungt.

„Vegna aðstæðna í Akureyrarbæ, sem er meira en minna ófær, sjáum við okkur ekki fært um halda þetta. Nú búum við okkur bara undir næsta ár,” segir Sigfús í samtali við Vikudag. Brennunni var fyrst aflýst í síðustu viku vegna þess að ekki tókst að fá kostunaraðila að gleðinni en nokkur fyrirtæki í bænum, ásamt Akureyrarstofu, buðust í kjölfarið til að styrkja félagið í að halda brennuna.

Sigfús vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem buðust til að hjálpa. „Við metum það mikils en það ræður enginn við veðurguðina,” segir Sigfús.

Nýjast