24. febrúar, 2011 - 20:59
Þór Akureyri var í kvöld fyrsta liðið til þess að leggja topplið Þórs frá Þorlákshöfn að velli
í 1. deild karla í körfubolta í vetur, er liðin mættust í Höllinni á Akureyri. Fyrir leikinn höfðu gestirnir frá
Þorlákshöfn unnið alla 16 leiki sína í deildinni og þegar tryggt veru sína í úrvalsdeildinni næsta vetur. Lokatölur í
kvöld urðu 96:76 fyrir Akureyringa. Konrad Tota var atkvæðamestur heimamanna með 32 stig, Ólafur Torfason skoraði 19 stig og Óðinn Ásgeirsson 17
stig.
Fyrir gestina skoraði Vladimir Bulut 20 stig og þeir Magnús Sigurðsson og Baldur Þór Ragnarsson 18 stig hvor.
Þór Þorlákshöfn hefur 32 stig á toppnum. Þór Akureyri hefur 24 stig í öðru sæti, tveimur stigum meira en
Skallagrímur sem á leik til góða þegar ein umferð er eftir.
Þór og Skallagrímur eru að berjast um annað sæti deildarinnar, ásamt Valsmönnum, en það sæti gefur heimaleikjaréttinn
í úrslitakeppninni.