Þór/KA skellti Breiðablik á heimavelli

Þór/KA vann afar sterkan 3:1 sigur gegn Breiðabliki á Þórsvelli í kvöld í annarri umferð Pepsi- deildar kvenna í knattspyrnu. Blikastúlkur voru mun meira með boltann í leiknum í kvöld en heimastúlkur nýttu sín færi vel í leiknum. Mateja Zver skoraði tvívegis fyrir Þór/KA í kvöld og Danka Podovac eitt mark. Mark Breiðabliks skoraði Sara Björk Gunnarsdóttir. Blikastúlkur voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og voru mun meira með boltann án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri.

Gegn gangi leiksins voru það hins vegar heimastúlkur sem voru fyrri til þess að skora og það gerði Danka Podovac á 28. mínútu. Þór/KA fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir aftan miðju. Bojana Besic tók langa spyrnu inn í teig þar sem Podovac var ein á auðum sjó og afgreiddi boltann í netið. Þór/KA komið 1:0 yfir og þannig stóðu leikar í hálfleik. 

Gestirnir hófu seinni hálfleikinn líkt og þeir enduðu þann fyrri, voru mun meira með boltann en gekk illa að brjóta vörn Þórs/KA á bak aftur. Norðanstúlkur höfðu hægt um sig framan af fyrri hálfleik en á 63. mínútu komst Katla Ósk Káradóttir í dauðafæri er hún átti fínan sprett upp að marki Breiðabliks en skot hennar af stuttu færi var slakt sem Katherine Loomis í marki gestanna varði.  

Á 75. mínútu kom annað mark Þórs/KA í leiknum. Rakel Hönnudóttir átti þá glæsilega stungusendingu inn á Mateju Zver sem stakk varnarmenn Blikanna af og skoraði framhjá Katherine Loomis í marki gestanna. Staðan orðinn 2:0 fyrir Þór/KA. Bojana Besic var svo nálægt því að bæta þriðja marki Þórs/KA við á 80. mínútu er hún átti gott skot úr aukaspyrnu af löngu færi sem small í þverslánni. Breiðablik náði að minnka muninn á 84. mínútu með marki frá Söru Björk Gunnarsdóttur og staðan 2:1 og enn nægur tími eftir.

Það var hins vegar Mateja Zver sem innsiglaði sigur Þórs/KA í leiknum tveimur mínútum fyrir leikslok er hún bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Þórs/KA. Mateja fékk stungusendinu inn fyrir vörn Breiðabliks, nú frá Vesnu Smiljkovic og skoraði af öryggi.

Lokatölur 3:1 sigur Þórs/KA, sem er komið með fjögur stig í deildinni en Breiðablik hefur þrjú stig.  

  

Nýjast