Gegn gangi leiksins voru það hins vegar heimastúlkur sem voru fyrri til þess að skora og það gerði Danka Podovac á 28. mínútu. Þór/KA fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir aftan miðju. Bojana Besic tók langa spyrnu inn í teig þar sem Podovac var ein á auðum sjó og afgreiddi boltann í netið. Þór/KA komið 1:0 yfir og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Gestirnir hófu seinni hálfleikinn líkt og þeir enduðu þann fyrri, voru mun meira með boltann en gekk illa að brjóta vörn Þórs/KA á bak aftur. Norðanstúlkur höfðu hægt um sig framan af fyrri hálfleik en á 63. mínútu komst Katla Ósk Káradóttir í dauðafæri er hún átti fínan sprett upp að marki Breiðabliks en skot hennar af stuttu færi var slakt sem Katherine Loomis í marki gestanna varði.
Á 75. mínútu kom annað mark Þórs/KA í leiknum. Rakel Hönnudóttir átti þá glæsilega stungusendingu inn á Mateju Zver sem stakk varnarmenn Blikanna af og skoraði framhjá Katherine Loomis í marki gestanna. Staðan orðinn 2:0 fyrir Þór/KA. Bojana Besic var svo nálægt því að bæta þriðja marki Þórs/KA við á 80. mínútu er hún átti gott skot úr aukaspyrnu af löngu færi sem small í þverslánni. Breiðablik náði að minnka muninn á 84. mínútu með marki frá Söru Björk Gunnarsdóttur og staðan 2:1 og enn nægur tími eftir.
Það var hins vegar Mateja Zver sem innsiglaði sigur Þórs/KA í leiknum tveimur mínútum fyrir leikslok er hún bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Þórs/KA. Mateja fékk stungusendinu inn fyrir vörn Breiðabliks, nú frá Vesnu Smiljkovic og skoraði af öryggi.
Lokatölur 3:1 sigur Þórs/KA, sem er komið með fjögur stig í deildinni en Breiðablik hefur þrjú stig.