ÞJÓÐ GEGN ÞJÓÐARMORÐI - Fjöldafundur í dag laugardaginn 6. september kl 14:00 á Ráðhústorgi á Akureyri

Útifundir verða á nokkrum stöðum hérlendis í dag, laugardag 6. september kl. 14:00. Á Akureyri verður safnast saman á Ráðhústorgi, ávörp verða, tónlist verður flutt og lesin bréf frá fólki á Gaza. Samtökin sem kalla sig Þjóð gegn þjóðarmorði standa fyrir fundunum.
Í yfirlysingu frá samtökunum segir.
 
,,Í nær tvö ár hefur heimsbyggðin fylgst með sífellt versnandi og óbærilegum þjáningum almennra borgara í Palestínu með hryllingi. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir fimmta og þar með efsta stigi hungursneyðar. Hún er alfarið manngerð af völdum Ísrael sem hefur lagt ræktanlegt landsvæði í rúst á Gaza og lokað fyrir að matvæli berist til íbúa. Samkvæmt gögnum ísraelska hersins eru 83% þeirra sem Ísrael hefur myrt almennir borgarar. Þar af eru a.m.k. 18.500 börn eða um 28 börn á hverjum einasta degi, álíka mörg og heill bekkur í grunnskóla á hverjum degi.
Þjóðarmorð stendur yfir af hálfu Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni. Stríðsglæpi Ísraels verður að stöðva.
 
Ríkisstjórn Íslands hefur líkt og aðrar ríkisstjórnir vestrænna ríkja ekki brugðist við glæpum Ísraels í samræmi við alvarleika þeirra. Nú hafa heildarsamtök launafólks, verkalýðsfélög, mannúðarsamtök, fagfélög og önnur samtök tekið saman höndum til að halda mótmælafundi um land allt þar sem almenningur kemur saman til að sýna samstöðu sína með Palestínsku þjóðinni og krefjast þess að íslensk ríkisstjórn grípi til alvöru aðgerða til að sýna afstöðu sína gegn þjóðarmorðinu!
 
Við höfnum þjóðarmorði og brotum Ísraels á alþjóðalögum. Tími yfirlýsinga og undanbragða er liðinn, tími aðgerða er runninn upp!
Fjölmennum á Ráðhústorg þann 6. september klukkan 14.00 og krefjumst tafarlausra og markvissra aðgerða íslenskra stjórnvalda gegn þjóðarmorðinu!
 
Sama dag standa prestar Glerárkirkju fyrir athöf þar sem þau lesa upphátt í kirkjunni nöfn og aldur allra barna sem látist hafa í þeim manngerðu hamförum sem gengið hafa yfir Palestínu og Ísrael frá 7. október 2023.
Lesturinn fer fram frá 9-12 og frá 16-20, eða eins lengi og þörf verður á til að lesa upp öll nöfnin."

Nýjast