Arnar Már Arngrímsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri, og nú rithöfundur, var á dögunum tilnefndur til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir árið 2015 fyrir bókina Sölvasaga unglings en verðlaunin verða kunngjörð í febrúar nk. Bók Arnars er tilnefnd í flokki barna-og ungmennabóka en þetta er hans fyrsta bók. „Þetta er toppurinn á tilverunni. Maður lendir ekki í þessu á hverjum degi,“ segir Arnar um tilnefninguna. Bókin segir frá Sölva, 16 ára Reykvíkingi sem er tilneyddur að eyða sumrinu austur á landi hjá ömmu sinni.
Á bókakápunni segir: ,,Sölvi er kvíðinn unglingur úr Reykjavík sem er sendur austur á land í sveit til ömmu sem hann þekkir varla. Nú á dögum eru einungis fíklar og alkar sendir í sveit og hann er hvorugt. Svo af hverju er hann píndur í sveitina? Opinbera skýringin er sú að foreldarnir þurfi að redda fjárhagnum – pabbi ætlar á sjó en mamma til Noregs. En Sölvi hefur líka ýmislegt á samviskunni, og nú á að kippa því í lag með því að láta hann púla í sveitinni. Og svipta hann netinu! Sölvi fær gamla herbergið hans pabba þar sem ekkert hefur breyst frá 1985. Mun hann finna sig umkringdur rispuðum vínilplötum og rykföllnum bókum? Hafa plaköt af David Bowie og Jóni Páli Sigmarssyni eitthvað að segja honum? Mun hann ná að brúa bilið milli ruglsins í höfðinu á honum og veruleikans í líki Arndísar? Munu rapptextarnir hans ná einhverju flugi eða færi best á að brenna allt draslið? Er hugsanlegt að hann snúi til baka úr þessari tímavél í lok sumars nýr og betri maður? Mun hann kannski ekkert snúa aftur yfirhöfuð?“
Um bókina segir Arnar: „Ég var óskaplega tættur unglingur sjálfur. Sú staðreynd, áhugi á þessu tímaskeiði og verandi kennari gerði það að verkum að mig langaði að skrifa þessa sögu. Þetta leitaði mjög sterkt á mig og mig langaði að bera það saman að vera unglingur í dag og þegar ég var unglingur. Ég geri það með því að tefla Sölva óbeint saman við föður sinn.“
Tilraun til þess að ná utan um nútímann og heim sem er að hverfa
„Vissulega hef ég unnið lengi með unglingum og lesið þeirra hugrenningar. Svo blandast við þetta sterkar minningar um eigin unglingsár. Þó þetta sé alls engin sjálfsævisaga eru allar persónurnar í bókinni sem sækja sér fyrirmyndir í persónur sem ég hef rekist á í gegnum lífið. Sölvi minnir mig líka á sjálfan mig að einhverju leyti en að mörgu leyti er hanns hins vegar allt öðruvísi,“ segir Arnar. Hann byrjaði að skrifa bókina fyrir þremur árum síðan. „Þetta hefur verið heilmikið lærdómsferli, mjög skemmtilegt og líka mikil vinna.“ Þótt bókin falli undir barna-og ungmennabókmenntir segir Arnar að Sölvasaga unglings sé fyrir breiðari aldurshóp. „Ég myndi segja að markhópurinn væri frá 14 ára aldri og uppúr. Bókin er nútímasaga þar sem þrjár kynslóðir koma við sögu. Þetta er í raun tilraun til þess að ná utan um nútímann og heim sem er að hverfa.“
En eru fleiri bækur á teikniborðinu hjá Arnari? „Þessi saga kallar á einhverskonar framhald. Það er ennþá frá mörgu að segja. En saga getur líka staðið ein og sér. Hvað verður kemur í ljós en ég hef mjög gaman af annarskonar tegundum af skáldskap. Ég orti t.d. mikið af ljóðum sem eru inni í bókinni en strákurinn, Sölvi, setur saman rímur og ljóð og það var eitt það skemmtilegasta við vinnsluna á bókinni. Hver veit nema Sölvi gefi út ljóðabók,“ segir Arnar Már.
-þev