Átakið hófst formlega 15. júní og felst í að teymi með fulltrúum RSK, ASÍ og SA heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir. Þannig hefur verið lögð áhersla á jákvæða nálgum og að verið sé að aðstoða og leiðbeina um rétta framkvæmd. Þá skrá fulltrúar RSK frávik sem kunna að vera frá réttri tekjuskráningu og krefjast frekari skoðunar og fulltrúar ASÍ og SA skrá starfsmenn og leiðbeina um framkvæmdina varðandi vinnustaðaskírteini og starfssamband aðila. Frá því átakið hófst hafa 3-4 teymi samstarfsaðila heimsótt tæplega 1500 vinnustaði um land allt og skráð á fimmta þúsund starfsmenn. Átakið mun standa til 15. september og verður þá lagt mat á árangurinn og ákveðið með framhaldið. Það er mat verkefnisstjórnar átaksins og þeirra sem heimsækja vinnustaðina að vel hafi tekist til með framkvæmdina. Þá hefur átakinu almennt verið vel tekið, bæði af þeim sem heimsóttir hafa verið og atvinnulífinu almennt.
Aðildarsamtök ASÍ hafa tekið virkan þátt í átakinu
Þótt ASÍ hafi komið fram fyrir hönd aðildarsamtakanna í átakinu hafa aðildarsamtökin lagt mikið af mörkum við framkvæmdina. Í upphafi var á vettvangi ASÍ ákveðið að Alþýðusambandið leggði til fulltrúa í verkefnisstjórn og myndi bera kostnað vegna sameiginlegra útgjalda. Hins vegar myndu aðildarsamtökin standa undir kostnaði vegna starfsmanna sem verkalýðshreyfingin leggur til átaksins. Jafnframt var ákveðið að eftirtaldir aðilar legðu hver um sig til einn starfsmann; Starfsgreinasambandið/Efling, LÍV/VR og „iðnaðarmannasamfélagið", þ.e. Samiðn, RSÍ og VM. Þá hafa eftirlitsfulltrúar aðildarfélaga ASÍ vítt og breitt um landið einnig komið að átakinu. Þannig er ljóst að framangreind aðildarsamtök ASÍ hafa borið hitan og þungan af verkefninu og framkvæmd þess.
Hvað tekur við?
Samkvæmt samstarfssamningi ASÍ, SA og RSK er gert ráð fyrir að verkefninu ljúki um miðjan september og að í framhaldinu verði gerð ítarleg grein fyrir verkefninu og þeim árangri sem það hefur skilað. Þá muni aðilar sameiginlega draga lærdóma af niðurstöðum verkefnisins og þá jafnframt hvort og þá hvernig eigi að hald áfram samstarfi þessara aðila. Hvað varðar mögulegt framhald er gert ráð fyrir að verkefnisstjórn átaksins, þar sem Halldór Grönvold og Þorbjörn Guðmundsson sitja fyrir hönd ASÍ, móti tillögur til samstarfsaðilanna um mögulegt framhald á samstarfinu og að þær tillögur verði mótaðar samhliða því sem unnið verður úr gögnum og reynslan af átakinu metin nú í september. Þetta kemur fram á vef ASÍ.