Þæfingsfærð og skafrenningur er á Víkurskarði

Hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur er víðast hvar á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Víkurskarði og ófært um Hólasand. Á Norðaustur- og á Austurlandi er víða snjóþekja og skafrenningur eða hálka. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði.  

Á Vesturlandi eru hálkublettir og skafrenningur á Bröttubrekku og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Hálka eða hálkublettir eru á Snæfellsnesi og í Dölum. Á Vestfjörðum er víða hálka eða hálkublettir og éljagangur. Ófært er um Hrafseyrarheiði og Dynjandisheiði. Vegir eru víðast auðir á Suðurlandi og á Suðausturlandi er víðast greiðfært, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Lögreglan á Akureyri aðstoðaði fólk sem festi bíl sinn í Víkurskarði í nótt, segir á mbl.is. Tilkynning barst um fólkið um kl. 4.30 í morgun. Lögreglan fór upp og tókst að losa bílinn og fylgdi honum niður á Svalbarðsströnd. Þar gafst bíllinn upp og fékk fólkið far heim til sín.

Nýjast