Líf, styrktarfélag, var stofnað 7.desember 2009 og hefur það meginmarkmið að styðja við og styrkja Kvennadeild Landspítalans, bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu og einnig þeirra kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Á deildinni fara fram um 70% fæðinga á landinu auk annarra kvenlækninga, svo sem vegna krabbameins í legi og brjóstum.
Kvennadeildin er nú illa búin tækjum auk þess sem húsnæðið er orðið gamalt og hefur ekki verið endurnýjað frá
því deildin var stofnuð árið 1975. Rekstur deildarinnar og tækjakaup hafa ávallt byggst á gjafafé, en hún var upphaflega sett á
laggirnar fyrir tilstuðlan kvenna sem söfnuðu fé fyrir deildina. Nú er hins vegar svo komið að landsmenn allir verða að leggja þessu mikilvæga
málefni lið svo fæðingarþjónusta og kvenlækningar geti staðist samanburð við það sem konur á öðrum Norðurlöndum
eiga að venjast í þessum efnum. Takmarkið með átakinu er að safna nægilegum fjármunum til að nútímavæða deildina.
Fæðingar- og kvenlækningadeild hefur verið hluti af starfsemi Landspítalans frá upphafi eða frá árinu 1931. Vegna mikilla þrengsla í
gamla Landspítalanum var hafist handa við að undirbúa byggingu nýrrar fæðingardeildar á lóð Landspítalans sem tekin var í
gagnið í ársbyrjun 1949. Þá skiptist þjónustan í fjórar deildir; fæðingadeild, sængurkvennadeild,
kvensjúkdómadeild og skurðdeild kvenna. Gömlu fæðingardeild Landspítalans var svo aftur breytt eftir stækkun deildarinnar árið 1975 og
fékk hún þá nafnið Kvennadeild Landspítalans. Starfsemin á síðustu áratugum hefur verið tvíþætt; annars vegar
fyrir konur með sjúkdóma og vandamál í kvenlíffærum og hins vegar fyrir konur á meðgöngu, í fæðingu og
sængurlegu.
Líf, styrktarfélag kvennadeildarinnar, heitir á landsmenn að sýna hug sinn í verki til íslenskra kvenna og fjölskyldna þeirra.
Þjóðin hefur oft og tíðum sýnt samtakamátt sinn í þjóðþrifaverkum - og þetta er svo sannarlega eitt þeirra. Konur
og nýfædd börn þeirra eiga allt það besta skilið. Þess vegna setjum við markið hátt og nútímavæðum eina
mikilvægustu þjónustu landsmanna. Við skorum á alla landsmenn, því það geta allir gefið Líf, segir í
fréttatilkynningu.