Liðið á nú eftir fjóra leiki í deildinni, tvo þeirra á heimavelli gegn KR og keppinautunum í fallbaráttunni, ÍR. Einnig á liðið eftir tvo útileiki gegn Stjörnunni og Val.
Staðan í deildinni er nú nú þannig að Þór/KA situr í sjöunda sætinu með 7 stig, ÍR er í því áttunda með 4 stig og töluvert lakari markatölu, neðstar eru svo Fylkisstelpur með þrjú stig og eru þær enn án sigurs.
Erfitt er að ætlast til þess að Þór/KA taki stig á móti toppliðum deildarinnar, KR eða Val, en hins vegar myndi sigur á ÍR og stig gegn Stjörnunni nær örugglega tryggja sæti liðsins í deildinni. Hvort tveggja er raunhæft, þ.e. að vinna ÍR og að minnsta kosti gera jafntefli við Stjörnuna.
Fylkir og ÍR virðast við fyrstu sín eiga „léttari” leiki eftir og eiga til að mynda eftir að mætast innbyrðist og einnig eiga þau leiki til góða. Það er því ljóst að ef Þór/KA ætlar sér að halda sæti sínu í deildinni og þá jafnvel halda því sjöunda, þá verður liðið að taka stig gegn fleiri liðum en ÍR til að geta andað rólega.
Haldist hins vegar 7. sætið í deildinni er það í fyrsta skipti síðan árið 2002 sem liðið verður ofar en neðstu tvö sæti úrvalsdeildarinnar og fellur ekki eða fer ekki í umspil um laust sæti í úrvalsdeild. Umspilið virkar þannig að næstneðsta lið úrvalsdeildar spilar við lið úr 1. deild um laust sæti í deildinni, líkt og Þór/KA og ÍR gerðu í fyrra. Það umspil endaði eins og frægt er orðið með kærumálum og að lokum fengu bæði lið sæti í Landsbankadeildinni, því eru þar 9 lið í ár í stað 8 eins og verið hafði.
Nokkuð vantar hins vegar upp á til að jafna besta árangur Þórs/KA og áður Þórs/KA/KS í deildinni, en það var 5. sætið árið 2002 þegar liðið lék undir stjórn Valdimars Pálssonar.
Deildin sterkari nú en nokkru sinni fyrr
Miklu hefur verið til tjaldað hjá Þór/KA í ár til að halda sætinu í deildinni, m.a. hafa verið fengnir til liðsins 5 erlendir leikmenn sem hafa styrkt liðið til muna. Það sama má reyndar segja um flest önnur lið Landsbankadeildarinnar, þau hafa öll styrkt sig mikið með erlendum leikmönnum og er deildin því sterkari en nokkru sinni fyrr. Því yrði afrekið að halda sér uppi, sérstaklega í ljósi þess að mjög ungir leikmenn eru í þeim stöðum sem erlendu leikmennirnir eru ekki í.
Kvennaknattspyrnan á Íslandi er í mikilli sókn og er Akureyri þar engin undantekning. Margar efnilega knattspyrnustelpur bíða þess að fá tækifærið hjá Þór/KA, og þær vilja eflaust fá það tækifæri í efstu deild. Nú er tækifærið svo sannarlega fyrir hendi og vonandi er að eina lið Norðurlands í efstu deild í knattspyrnu nái að halda sér þar á sannfærandi hátt.
Að lokum er hér staðan í deildinni og þeir leikir sem þrjú neðstu liðin eiga eftir.
Þór/KA: KR (h), Stjarnan (ú), ÍR (h), Valur (ú)
ÍR: Fjölnir (h), Fylkir (ú), KR (h), Þór/KA (ú), Stjarnan (h)
Fylkir: Stjarnan (ú), ÍR (h), Valur (ú), Keflavík (h), Breiðablik (ú)