Á nýliðinni haustönn hófu 1330 nemendur nám í dagskóla Verkmenntaskólans á Akureyri og um 500 í fjarnámi. Allt stefnir í að nemendafjöldinn verði svipaður á vorönn og nú sem undanfarnar annir hefur skólinn þurft að hafna fjölmörgum umsækjendum. "Brottfall hefur verið ívið minna nú en oft áður og má ef til vill þakka það þeirri staðreynd, sem er nú að verða flestum ljós, að ef þú notar ekki tækifærið núna, á meðan þú ert í skólanum, er algjörlega óvíst hvort þú eigir þess kost að komast aftur í skólann ef þú leggur þig ekki fram núna eða hættir. Langflestir nemendur okkar eru með óaðfinnanlega mætingu svo við gerum hana nú að umtalsefni eina ferðina enn. Nokkur hluti nemendahópsins virðist samt, því miður, ekki geta farið eftir sjálfsögðum reglum í þessu sambandi, og á því á hættu að detta út úr áföngum og jafnvel skólanum. Að gefnu tilefni hafa sumum þessara einstaklinga verið gert að skrifa undir sérstakan samning við skólameistara. Það er skilyrði fyrir skólavist þeirra á næstu önn þar sem þeim verður gefið síðasta tækifærið til þess að standa sig. En þrátt fyrir fögur fyrirheit eiga alltaf allnokkrir erfitt með að halda samninginn og þá teljum við að fullreynt sé. Aðrir taka sig á og láta aldrei aftur um sig spyrjast að þeir geri ekki sitt besta, sem er sú meginkrafa sem við gerum til nemenda Verkmenntaskólans á Akureyri. Svo má heldur ekki gleyma þeim sem eiga við slíkar aðstæður að stríða að nauðsynlegt getur reynst að veita þeim undanþágur frá almennum mætingareglum. - En svo mikið er víst að við reynum að koma til móts við alla. Önnur ástæða fyrir minna brottfalli nú en oft endranær er ef til vill það að nemendur eiga ekki eins greiðan aðgang að atvinnu eins og fyrr," Hjalti Jón m.a. í ræðu sinni.
Af þessum tæplega 90 nemenda hópi sem útskrifaðist í morgun voru m.a. 42 stúdentar, 16 rafvirkjar og 10 sjúkraliðar. Hjalti Jón segir að þrátt fyrir kröfu um sparnað í rekstri skólans upp á 35 milljónir á árinu, hafi tekist að halda óbreyttu námsframboði. Sparnaðarkrafan fyrir næsta ár er enn meiri, eða um 55 milljónir króna. "Það er ekki svo að skólinn megi mæta þessum sparnaði með því að fækka nemendum heldur er honum skylt samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2011 að draga úr kostnaði sem þessu nemur án þess að hróflað verði við ársnemendafjölda. Með öðrum orðum þarf að þjónusta jafnmarga nemendur og árið 2009 en með 80-90 milljóna lægri kostnaði," segir Hjalti Jón.