Í gær 20.september voru liðnir sjö mánuðir frá að ósk níu þingmanna um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ynni skýrslu vegna lokunnar austur- vestur flugbrautar Reykjavíkurflugvallar var samþykkt á Alþingi.
Vegna þessara miklu tafa sem hafa orðið á afhendingu skýrslunnar og nú þegar nýtt þing er hafið þarf á nýjan leik að leggja fram beiðni um að þessi skýrsla sé unnin.
Saga máls
Í byrjun febrúar á þessu ári kom upp sú sérkennilega staða þegar austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað. Reykjavíkurborg hafði ekki staðið við skuldbindingar sínar um að fella tré í Öskjuhlíðinni sem vaxið höfðu upp í hindrunarfleti Reykjavíkurflugvallar og ekki hægt að tryggja hindrunarlaust aðflug og brottflug frá austur-vestur brautinni (flugbraut 13/31). Í skýrslubeiðninni er óskað eftir tímalínu á samskiptum þeirra aðila sem koma að málinu frá því í apríl 2013.
Njáll Trausti Friðbertsson
Tilskipun Samgöngustofu
Samgöngustofa gaf út tilskipun vegna málsins þar sem sagði m.a:
„Hvorki Isavia innanlandsflugvöllum né Samgöngustofu hefur tekist að fá hindranir fjarlægðar þrátt fyrir skýr ákvæði Skipulagsreglna Reykjavíkurflugvallar og hefur Reykjavíkurborg verið veittur frestur til 17. febrúar nk. til að upplýsa Samgöngustofu um hvernig staðið verður að uppfyllingu þeirra krafna.
Samgöngustofa beinir þeim fyrirmælum hér með til Isavia innanlandsflugvalla að takmarka notkun flugbrautar 13/31 þannig að flugbrautin sé ekki notuð til flugtaks og lendinga sem reynir á þá hindranafleti sem ekki eru hindranafríir. Þetta felur í sér að loka skal fyrir lendingar á flugbraut 13 og flugbraut 31, og að loka skal fyrir flugtök á flugbraut 13.
Með vísan í fyrri samskipti þá ítrekar Samgöngustofa að bannið nær einnig til sjúkraflugs. Nota má flugbraut 31 til flugtaks og til aksturs loftfara og ökutækja.“
Á stuttri lokastefnu fyrir braut 13 á Reykjavikurflugvelli
Um hvað er beðið í skýrslubeiðninni:
Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar. Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði:
Almannaöryggi
Lokun flugbrautarinnar setti sjúkraflugið í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin á sínum tíma kom til þess að ekki var vilji hjá Reykjavíkurborg til að standa við skyldur sínar. Borgaryfirvöld höfðu vitað af þessu vandamáli í að minnsta kosti áratug
Reykjavíkurflugvöllur er eitt af helstu öryggismannvirkjum landsins. Því er um grundvallarhagsmuni að ræða sem varðar öryggi landsmanna. Í 150. grein laga um loftferðir eru til staðar skýrar heimildir Samgöngustofu um það hvernig megi koma í veg fyrir að þessa ótrúlega staða hafi komið upp 8.febrúar síðastliðinn.
Þeir þingmenn sem óska eftir að þessi skýrsla verði unnin telja eðlilegt að tekin verði saman gögn um það hvernig lokunin atvikaðist og hvort almannaöryggis hafi verið gætt í því ferli, í samskiptum Samgöngustofu, Reykjavíkurborgar og Isavia Innanlands
Dash 8 Q400 lendir á austur vestur brautinni á Reykjavíkuflugvelli