„Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og það skiptir okkur miklu máli að vel takist til. Því hefur verið lögð sérstök áhersla á samráð við starfsfólk, en einnig notendur og samfélagið okkar. Við erum að byggja til langrar framtíðar og í mörg horn þarf að líta. Markmiðið er að nýbyggingin standist væntingar, hún gagnist sem best og sé í takti við nútímakröfur í heilbrigðisþjónustu,“ segir Gunnar Líndal, verkefnastjóri á sviði klínískrar stoðþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Gunnar Líndal, verkefnastjóri
SAk hefur boðið til opins súpufundar um fyrirhugaða nýbyggingu á hádegissúpufundi í Hofi, á morgun miðvikudaginn 19. nóvember kl. 12-13. Fundinum verður einnig streymt á vef og verður hægt að nálgast hlekk á heimasíðu og Facebook síðu Sjúkrahússins.
„Það er ákaflega mikið tilhlökkunarefni fyrir okkur á Sjúkrahúsinu á Akureyri að sjá fram á löngu tímabæra nýbyggingu, sem kemur til með að hafa mjög mikil áhrif á okkar starfsemi. Með nýbyggingunni gefst okkur tækifæri til að efla og bæta þjónustu við skjólstæðinga á okkar starfssvæði, en ekki síður að bæta starfsaðstæður starfsfólks.“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.
Hún segir mikilvægt að Sjúkrahúsið á Akureyri sé í góðu sambandi við fólk á starfssvæði þess. „Við finnum það að Sjúkrahúsið á Akureyri er okkar samfélagi ákaflega verðmætt og það er að sjálfsögðu fyrir fólkið sem við vinnum. Ekki síst þess vegna viljum við boða til opins fundar um þetta stóra og mikilvæga samfélagslega verkefni.“

Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.
Fundurinn verður stuttur og snarpur hádegisfundur þar sem farið verður yfir undirbúning og fyrirhugaða framkvæmd, auk þess sem fulltrúar þeirra deilda sem munu verða í nýbyggingunni segja frá því hvaða máli hún skiptir fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Þá gefst kostur á að spyrja spurninga og að fundi loknum gefst tækifæri til óformlegs spjalls.