Starfshópur á vegum Akureyrarbæjar hefur sett fram stefnu um forgangsröðun í nýfjárfestingu íþróttamannvirkja frá og með árinu 2020 til 2035. Um ellefu verkefni er að ræða og er heildarkostnaður við þau gróflega metin 6.750 milljónir kr. Stofnaður var þverpólitískur starfshópur sem tók til starfa í mars 2019. Meginverkefni þessa starfshóps var að gera drög að forgangsröðun uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri næstu 15 árin út frá fjárhagslegu svigrúmi bæjarins og fjárþörf verkefna. Í vinnu sinni horfði starfshópurinn til fjölbreytni og gæða núverandi íþróttamannvirkja, nýtingu þeirra, fjölda iðkenda, skólastarfs, ferðaþjónustu og almennings.
Brýnt að uppfylla samninginn við Nökkva
Fara á í uppbyggingu á félagssvæði Nökkva við Höpnersbryggju en byggja á félagsaðstöðu og bátageymslu. Þannig á að klára framkvæmd sem er hafin og uppfylla samning frá árinu 2014. Starfshópurinn telur núverandi aðstöðu félagsins ekki góða og telur brýnt að bæta úr hið fyrsta. „Aðstaðan er á áberandi stað í bænum og leggur hópurinn áherslu á að þetta verkefni klárist sem fyrst,“ segir í skýrslunni. Þá á að reisa félags- og æfingaaðstöðu í norðurenda Skautahallar Akureyrar en núverandi aðstaða þykir ekki til fyrirmyndar, hvorki fyrir iðkendur né almenning.
Gervigras og stúka á KA-svæðinu
Útbúa á æfinga- og keppnisaðstöðu á gervigrasi á félagssvæði KA ásamt stúkubyggingu. Í skýrslunni segir að mikil viðhaldsþörf sé komin á Akureyrarvöll og því sé brýnt að annað hvort verði ráðist í það viðhald eða hefja uppbyggingu annarsstaðar í bænum. Því leggur hópurinn til að útbúinn verði löglegur keppnisvöllur á svæði KA samkvæmt leyfiskerfi KSÍ . Hópurinn leggur til að ráðist verði í ofangreindar framkvæmdir og svæðið sem þá losnar á Akureyrarvelli verði skipulagt undir aðra starfsemi. Einnig á að byggja íþróttahús á félagssvæði KA fyrir innanhúsgreinar.
Þjónustuhús í Hlíðarfjalli
Reisa á þjónustuhús fyrir starfsemi skíðastaða í Hlíðarfjalli sem mun m.a. innihalda veitingaaðstöðu og salerni, miðasölu fyrir gesti, aðstöðu fyrir skíðaskóla, aðstöðu fyrir skíðaleigu, aðstöðu fyrir Skíðafélag Akureyrar og aðstöðu fyrir starfsfólk. Segir í rökstuðningi að núverandi skíðahótel sé barn síns tíma og sú aðstaða sé úr sér gengin, en nú eru nokkrir gámar á svæðinu til bráðabirgða. „Með því að sameina allt í nýju þjónustuhúsi mætti stórbæta aðstöðu starfsfólks og gesta en Hlíðarfjall hefur stóru hlutverki að gegna þegar kemur að ferðaþjónustu og útivist,“ segir í skýrslunni. Þá á að reisa innanhússæfingaaðstöðu við golfskálann að Jaðri. Með þessu móti mætti færa alla starfsemi GA á einn stað og losa þannig aðstöðu í kjallara Íþróttahallarinnar sem þá er hægt að úthluta til annarra íþróttagreina/félaga.
50 m innisundlaug
Byggja á 50 metra innanhússundlaug í Sundlaug Akureyrar fyrir kennslu, æfingar og keppni. Í skýrslunni segir að núverandi æfinga- og keppnisaðstaða sundfélagsins sé ekki góð en nú æfi sundfélagið í 25 m útisundlaug sem einnig er ætluð almenningi. „Björt innisundlaug yrði bylting í æfingaaðstöðu félagsins og myndi auka aðgengi almennings,“ segir í skýrslunni.
Nýtt íþróttahús á félagssvæði Þórs
Byggja á íþróttahús á félagssvæði Þórs fyrir innanhússíþróttagreinar en íþróttastarfsemi félagsins dreifist í nokkur íþróttamannvirki bæjarins. Einnig á að útbúa utanhúss gervigrasæfingasvæði á félagssvæði Þórs, gervigrasvöll sem gæti nýst vel við æfingar og keppni yngri flokka. Þá á að byggja félags-, æfinga- og geymsluaðstöðu við vesturhlið Bogans á félagssvæði Þórs. „Í framtíðinni er möguleiki á að Boginn verði í auknum mæli nýttur fyrir alls konar samkomur, svo sem mótahald og sýningar og því gæti verið gott að gera ráð fyrir plássi fyrir færanlegt gólf,“ segir í skýrslunni.