Tæki og kunnátta til staðar á svæðinu

Norðurverk er á meðal þeirra sex aðila sem skiluðu inn gögnum vegna forvals Vaðlaheiðarganga en að fyrirtækinu standa sex eyfirskir verktakar, Árni Helgason ehf., SS Byggir ehf., Skútaberg ehf, GV Gröfur ehf, Rafeyri ehf. og Norðurbik ehf. Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri SS Byggis er bjartsýnn á að Norðurverk standist útboðskröfur og fái að bjóða í framkvæmdir við gerð Vaðlaheiðarganga.  

"Við viljum skapa störf hér í firðinum. Okkur finnst það heldur ekki rétt, þegar farið er af stað með þetta stórt verk á svæðinu, að sitja hjá og láta erlenda aðila sjá um það. Þeir aðilar sem eru í þessum hóp eiga öll tæki og tól til að vinna verkið nema borinn en í svona verkum er þeir teknir á leigu. Öll okkar tæki eru hér í Eyjafirði og kunnáttan er fyrir hendi," sagði Sigurður.

Hann segir að það sé margt í verkinu sem henti fyrirtæki eins og SS Byggi og aðrir í hópnum séu sterkir hver á sínu sviði. Sigurður er bjartsýnn á að Norðurverk fái að taka þátt í útboðinu, enda væri það mjög sérstakt ef íslenskt fyrirtæki gæti ekki tekið þátt í því. Áætlaður heildarkostnaður við gerð Vaðlaheiðarganga er um 10,4 milljarðar króna. Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við HA, sem mikið hefur fjallað um gerð Vaðlaheiðarganga, hefur bent á að ef íslenskir aðilar vinna verkið, muni um tveir milljarðar króna skila sér aftur í ríkissjóð. Gangi það eftir segist Sigurður vona að þeir tveir milljarðar fari þá í enn frekari framkvæmdir á þessu svæði.

Þessa dagana er verið að fara yfir göngin vegna forvalsins og kanna hverjir standast útboðskröfur en stefnt er að því hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng í haust.

Nýjast