„Sýnir svart á hvítu að þörfin er til staðar“

Raðhúsið í Lyngholti var flutt til Húsavíkur í nokkrum einingum og reis á örfáum dögum í vor. Mynd/F…
Raðhúsið í Lyngholti var flutt til Húsavíkur í nokkrum einingum og reis á örfáum dögum í vor. Mynd/Framsýn.

Byggðarráð Norðurþings fjallaði á dögunum um erindi frá Framsýn Stéttarfélagi um frekari uppbygginu íbúðafélagsins Bjargs á Húsavík. Ráðið tók jákvætt í erindið en í apríl á þessu ári fluttu íbúar inn í nýtt sex íbúða raðhús sem reis á methraða í Lyngholti á Húsavík. Það var samstarfsverkefni Bjargs, Norðurþings og Framsýnar.

Stórhuga um frekari framkvæmdir

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar segir í samtali við Vikublaðið að menn sé stórhuga hjá Framsýn eftir vel heppnað verkefni í vor og þar hafi jafnframt komið í ljós að markaður væri fyrir frekari uppbyggingu.

Vilja uppbygginu í Þingeyjarsveit líka

Og það er ekki bara á Húsavík sem Framsýn sér fyrir sér íbúðauppbyggingu á vegum Bjargs. ,,Við vorum að senda annað svona erindi á Þingeyjarsveit, enda verið haft samband við okkur um að ýta á uppbyggingu þar líka og við erum að sjálfsögðu til í það. Þar erum við að óska eftir því að Bjarg og Þingeyjarsveit komi að uppbyggingu í sveitarfélaginu," segir Aðalsteinn.

Framsýn horfir sérstaklega til þess að leiguheimili Bjargs séu ætluð fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum auk þess að hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB samkvæmt viðmiðunarreglum Bjargs.

Ánægður með viðbrögð frá Norðurþingi

„Ég er mjög ánægður með afstöðu byggðaráðs að taka jákvætt í þetta, þrátt fyrir að mikil óvissa sé með stöðu PCC á Bakka. Þess vegna er sérstaklega ánægjulegt að ráðið taki svo vel í erindið frá okkur,“ segir Aðalsteinn og bætir við að eins og með síðasta verkefni sé gert ráð fyrir að Bjarg skipuleggi og fjármagni verkefnið að mestu leiti en þá sé mikilvægt að fá mótframlag frá sveitarfélögunum til að koma verkefninu af stað.

Mikil jákvæðni hjá öllum aðilum

„Það er allt sem er jákvætt við svona verkefni. Það er Bjarg sem skipuleggur þetta og fjármagnar að mestu leiti og sér um að semja við verktaka um framkvæmdir og svo losar þetta um húsnæði á vegum sveitarfélagsins, þannig að ávinningurinn er mikill,“ segir Aðalsteinn og bendir á að þegar íbúðirnar í Lyngholti voru byggðar hafi yfir 40 umsóknir borist í þessar sex íbúðir.

„Það sýnir okkur það svart á hvítu að þörfin er til staðar og það skemmir ekkert fyrir að jákvæðnin fyrir þessu verkefni var mikil og við vorum virk í því að ýta því áfram. Það er bara mikil sæla með verkefnið frá öllum aðilum og samstarfið hefur verið mjög gott,“ segir Aðalsteinn að lokum.

Nýjast