„Það er auðvitað skemmtilegt að fá viðurkenningu á því sem maður er að gera og þetta sýnir að maður er að fara í rétta átt,” segir Jón Benedikt Gíslason, nýkrýndur íshokkíleikmaður ársins 2010 í karlaflokki. Þetta er í þriðja skiptið sem Jón hlýtur þessa viðurkenningu en hann er lykilleikmaður og jafnframt fyrirliði Skautafélags Akureyrar.
Jón, sem er 27 ára, fór fyrir sínu liði þegar það tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í spennandi úrslitakeppni gegn Birninum síðasta vor. Hann hefur einnig verið einn af lykilleikmönnum íslenska karlalandsliðsins síðasta áratuginn og ekki síst á heimsmeistaramótinu í vor þegar liðið tryggði sér bronsverðlaun í 2.deild, sem er besti árangur Íslands frá upphafi.
„Þetta er mjög skemmtilegt og sýnir að ef maður æfir sig nógu mikið er árangurinn eftir því,” segir Guðrún Kristín Blöndal, sem var valinn íshokkíleikmaður ársins í kvennaflokki. Þetta er í fyrsta skiptið sem Guðrún verður fyrir valinu. Þrátt fyrir að vera orðin 34 ára er hún frekar ung í sportinu en hún var 26 ára þegar hún byrjaði að æfa.
„Þannig að þetta er bara rétt að byrja hjá mér. Ég byrjaði að æfa frekar seint og svo komu barneignir reglulega inn á milli, þannig að ég hef kannski æft í svona sjö ár í það heila. Það sem hefur hins vegar gert gæfumuninn fyrir mig er að ég æfi rosalega vel þegar ég er að æfa. Ég fer sex daga vikunnar á æfingu og mæti á allar aukaæfingar. Það er ekki æfingin sem skapar meistarann heldur aukaæfingin,” segir hún. Guðrún er fyrirliði kvennaliðs SA Valkyrja og hefur verið lykilleikmaður kvennaliðs Skautafélags Akureyrar undanfarin ár.
Nánar er rætt við þau Jón og Guðrúnu í nýjasta tölublaði Vikudags.