Sýning á búningum og textílhönnun frá Japan

Í dag, þriðjudaginn 27. nóvember kl. 17.00, verður opnuð í Ketilhúsinu á Akureyri sýning á búningum og textílhönnun frá Noh leikhúsi Japans. Noh er ein af mikilvægustu menningararfleifðum Japans en saga þess spannar 600 ár. Noh leikhúsið var í miklum metum hjá samurai stríðsmönnum Japans en stétt þeirra hélt þessu listformi á lofti frá 14. öld til þeirrar 19. Búningar leikaranna skipuðu strax viðamikið hlutverk þar sem þeir upphófu leikverkið og fegruðu Noh sviðið. Búningarnir eru fíngerðir og sýna vel hina miklu fagurfræði sem ríkir í Japan. Handbragð við gerð búninganna er einstakt en háþróuð tækni er notuð við vefnað og litun efnisins. Litirnir eru glæsilegir en litunarferlið er flókið og notaðar er sérvaldar jurtir og náttúruleg hráefni til að ná áhrifunum fram. Búningar Noh leikhússins skipa sérstakan sess í sögu japansks textíliðnaðar og í menningararfleifð Japans. Gestum sýningarinnar gefst kostur á að skoða í návígi undurfagra hönnun og stórkostlega vel unna búninga sem sjaldan sjást á Íslandi. Sýningin inniheldur nokkra glæsilega búninga, sem og ýmsa aukahluti sem hafa verið endurskapaðir úr upprunalegri mynd með mikillri gaumgæfni af Yamaguchi Noh Costume Reserch Centre í Kyoto í Japan. Búningar eru allir byggðir á margra alda gamalli hönnun og notast var við handbragð þess tíma.

Í tengslum við sýninguna verða haldnir tveir fyrirlestrar þar sem listamaðurinn hr. Akira Yamaguchi mun segja frá Noh búningunum og Noh leikhúsinu. Fyrri fyrirlesturinn verður miðvikudaginn 28. nóvember klukkan 12-13 og sá seinni föstudaginn 30. nóvember frá 17-18. Sýningin í Ketilhúsinu stendur yfir frá 27. nóvember til 1. desember og er opin frá 13 - 17 utan morgundagsins en þá er opið 17-18. Það er sendiráð Japans, í samvinnu við Landsbókasafn Íslands, Menningarmiðstöðina í Listagili á Akureyri og Íslensk-Japanska félagið sem býður til sýningarinnar á búningum og textílhönnun úr Noh leikhúsi Japans.

Nýjast