Sumarið er komið!

Það er komið sumar!
Það er komið sumar!

Þetta dásamlega veður sem landsmenn njóta er gleðiefni og er þá vægt tekið til orða, á heimasíðu Þingeyjarsveitar er þessari blíðu fagnað.

Sumarið lætur nú loksins sjá sig af fullum krafti um land allt og þar er Þingeyjarsveit engin undantekning. Blíðan hefur glatt bæði íbúa og gesti síðustu daga og sólin skinið af áfergju líkt og björn nývaknaður af vetrardvala. Grundirnar eru óðum að taka á sig grænan lit og það er ótrúlegt hversu mikil breyting verður á stuttum tíma - flestir eru sennilega búnir að gleyma því að hafa vaknað upp við alhvíta jörð fyrir nokkrum dögum síðan.

Litadýrðin, fuglasöngurinn og býflugnasuðið gleður svo sannarlega og á skrifstofu sveitarfélagsins eru haustlaukarnir sem Ingimar Ingimarsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs setti niður síðasta haust farnir að blómstra. Þingeyjarsveit þakkar Ingimar sérstaklega fyrir framtakið, það er augljóst að vel var vandað til verka og útkoman gleður svo sannarlega augað.

Við vonum að íbúar og gestir geti notið blíðunnar, hvort sem það er í garðvinnu, úti í göngu eða við önnur vorstörf. Einnig óskar sveitarfélagið þess að vorverkin gangi sem best hjá öllum og að komandi sumarmánuðir verði ánægjulegir og friðsælir og vonandi jafn hlýjir og góðir og þeir dagar sem við fáum nú!

Valdís Lilja Hönnu Stefánsdóttir launafulltrúi nýtur blíðunnar í kaffipásunni.

Nýjast