Stórsigur ÍBV á Þórsvelli

Það urður heldur betur óvænt tíðindi á Þórsvelli í dag þegar nýliðar ÍBV unnu 5:0stórsigur gegn Þór/KA, í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Gestirnir úr Eyjum voru mun betri frá upphafi til enda, en heimastúlkur áttu engin svör og voru hreinlega yfirspilaðar á eigin heimavelli. Það er ljóst að ÍBV er lið sem verður að taka alvarlega í sumar og ef marka má spilamennsku liðsins i dag, gæti nýtt lið blandað sér í toppbaráttuna í sumar.

Það tók leikmenn ÍBV rétt tæpar þrjár mínútur að skora fyrsta markið og það gerði Þórhildur Ólafsdóttir af stuttu færi inn í teig, eftir vel útfærða sókn gestanna. ÍBV var miklu sprækara liðið framan af og líklegra til þess að bæta við marki en heimamenn að jafna metin.

Það var svo á á 22. mínútu að annað mark gestanna leit dagsins ljós og var það af dýrari gerðinni. Vesna Smiljkovic, fyrrum leikmaður Þórs, fékk boltann utarlega í teignum og skoraði með þrumuskoti upp í samskeytin. Glæsilegt mark hjá Vesnu, en Þórs/KA stúlkur í tómu tjóni.Þegar fimm mínútur voru til hálfleiks var komið að hinum fyrrum leikmanni Þórs/KA í liði ÍBV, Dönku Podovac. Hún fékk boltann fyrir utan teig, lét vaða og Berglind Magnúsdóttir kom engum vörnum við í marki heimamanna.

Staðan 3:0 fyrir gestina í hálfleik, heldur betur óvænt á Þórsvelli.Martröð heimamanna hélt áfram í seinni hálfleik. Það voru rétt tæpar tvær mínútur liðnar þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fjórða mark gestanna. Berglind fékk boltann inn í teig, lék á varnarmann og skoraði með góðu skoti. Fimm skot og fjögur mörk hjá ÍBV.Þórs/KA stúlkur reyndu að bíta frá sér en það gekk fátt um hjá þeim í leiknum.

Ef einhver vonarglæta hafði verið fyrir heimamenn að fá eitthvað úr leiknum, fauk hún út um veður og vind á 58. mínútu, er Danka Podavac skoraði fimmta mark gestanna úr vítaspyrnu eftir að Berglind Magnúsdóttir markvörður Þórs/KA hafði brotið á leikmanni gestina.Staðan 5:0 fyrir ÍBV eftir tæpan klukkutíma leik.

 

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að laga stöðuna og átti Mateja Zver skalla í stöngina þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Leikurinn fjaraði út og verðskuldaður sigur Eyjastúlkna staðreynd.

 

Lokatölur á Þórsvelli, 5:0 sigur ÍBV.

 

Nýjast