Hið árlega frjálsíþróttamót, Stórmót ÍR, var haldið í 15. sinn í Laugardagshöllinni sl. helgi. Um 700 keppendur frá 25 félögum tóku þátt á mótinu og þar á meðal voru keppendur frá UFA og UMSE.
Af árangri UFA ber hæst árangur Bjarka Gíslasonar sem bætti sitt eigið Íslandsmet í stangarstökki í flokki 20-22 ára er hann stökk 4,82 m og bætti metið um einn sentimetra. Bjarki reyndi við 5 m en náði því ekki að þessu sinni. Af öðrum árangri UFA keppenda má nefna að Kolbeinn Höður Gunnarsson vann fern gullverðlaun en hann sigraði í 60, 200 og 400 m hlaupi og í 60 m grindahlaupi í flokki 16-17 ára.
Bríet Ósk Ólafsdóttir sigraði í 60 m hlaupi í flokki 13 ára, Rakel Ósk Björnsdóttir sigraði í 400 m hlaupi 18 ára og eldri, Örn Dúi Kristjánsson hafnaði í fyrsta sæti í 60 m grindahlaupi 18 ára og eldri og Einar Aron Fjalarsson sigraði í þrístökki í flokki 15 ára.
Af árangri UMSE keppenda ber hæst að Ólöf Rún Júlíusdóttir sigraði í stangarstökki í flokki 15 ára og Júlíana Björk Gunnarsdóttir sigraði í stangarstökki í flokki 13 ára.
Einnig unnu bæði félög til fjölda brons-og silfurverðlauna á mótinu.