Stórkostlegur árangur Kára Þórs Barry, fatahönnuðar og textílkennara á alþjóðlegri fatahönnuðarkeppni í Prag.

Kári Þór með viðurkenningarskjal  sitt ásamt Petru sem var ein af skipuleggjendum keppninar  Myndir …
Kári Þór með viðurkenningarskjal sitt ásamt Petru sem var ein af skipuleggjendum keppninar Myndir Kári Þór Barry

Ungir og efnilegir Akureyringar eru víða og í mörgum greinum atvinnulífsins. Einn þeirra er Kári Þór Barry, fatahönnuður og textílkennari við Brekkuskóla.

Kári útskrifaðist með BA gráðu í fatahönnun úr Listaháskóla Íslands í vor og kom að sjálfsögðu norður og stökk beint í djúpu laugina í kennslu í textíl.

Kári gerði nú gott betur en það og sendi umsókn um þáttöku í alþjóðlegu fatahönnunarkeppnina Diploma Selection sem Designblok, hönnunarhátíðin í Prag, Tékklandi, heldur á ári hverju. Þessari keppni berast ósköpin öll af umsóknum um þátttöku. Þetta árið voru um 200 gildar umsóknir sem dómnefndin þurfti að velja úr. Keppnir eins og þessi er ein leið nýrra hönnuða til að koma nafni sínu á framfæri.

Í lok ágúst kynnti dómnefndin hvaða 15 hefðu komist í úrslit og Kári var í þeim hópi. Kára var því boðið að mæta á hátíðina og sýna útskriftarhönnun sína, sem voru 6 mismunandi jakkaföt, ásamt hinum 14 hönnuðunum sem voru valdir. Þessir hönnuðir voru ýmist að útskrifast með master (MA) í hönnun eða með BA sem er grunnnámið.

Síðastliðinn miðvikudag þann 8. október hófst hátíðin með alskyns sýningum um alla borgina en tískusýningin sem Kári keppti í var haldin laugardaginn 11. október. Verk þessara 15 nýju hönnuða voru skoðuð af dómnefnd og það er skemmst frá því að segja að Kári hreppti 3ja sætið á þessari hátíð með fatahönnun sína sem voru jakkaföt. Verðlaun fyrir 3ja sætið eru ráðgjafatímar hjá tísku umboðsaðilla sem vinna með fólki innan geirans og hugsanlega boð um að mæta að ári á hátíðina (það á eftir að koma í ljós) .

Kári hafði þetta að segja um þátttöku á hátíðinni og hvað verðlaun á þessari hátíð hafa að segja fyrir hann: „Ég gerði mér engar sérstakar væntingar þegar ég sótti um að fá að taka þátt en varð að sama skapi afskaplega glaður að fá þær fréttir að ég væri velkomin með jakkafötin mín og sýna þessa hönnun mína. Ég mætti út með það að markmiði að afla mér sambanda og sjá hvað aðrir í Evrópu á mínum aldri eru að fást við og kannski fá þá hugmyndir að einhverju sem ég gæti gert að mínu. Ég átti alls ekki von á einhverju meira þannig að þátttakan var nokkurs konar verðlaun í mínum huga… til að byrja með.  Það að vera einn af 15 sem fengu boð voru frábærar fréttir og keppnisskapið jókst aðeins á leiðinni út."

Þegar úrslitin voru svo kunngjörð þá var ekki laust við að fæturnir lyftust aðeins frá jörðinni og skýin urðu rósrauð í dágott augnablik.Það að hljóta þessi 3ju verðlaun á hátíðinni er frábær kynning fyrir mig og mun eflaust hjálpa mér að ná markmiðum mínum í framtíðinni. Einnig fengu einhver tískuhús nafnið mitt og vonandi verða til einhver sambönd upp úr því. Þetta er risastór hátíð þar sem margir sem hafa aðild að tískumarkaðnum mæta á til að uppgötva nýjar línur og nýja hönnuði.“

Kári er frábær viðbót við flotta unga kynslóð á Akureyri sem eru að gera stór góða hluti.

Nýjast