„Þegar við horfum á þetta glæsilega mannvirki skulum við minnast þess að Krummakot er áþreifanleg sönnun þess sem við getum áorkað þegar við vinnum saman að sameiginlegu markmiði. Hann er fjárfesting í framtíð barnanna okkar og þar með framtíð samfélagsins alls,“ sagði Erna Káradóttir leikskólastjóri á Krummakoti í Eyjafjarðarsveit sem tekin var formlega í notkun á dögunum. Krummakot varð 38 ára í liðnum mánuði. Krummakot stendur við Hrafnagilsskóla og er tenging á milli skólanna. Alls eru í skólanum 5 deildir og pláss fyrir 20 börn á hverri þeirra en aðeins færri börn eru tekin inn á deild fyrir þá yngstu. Leikskólinn er tæplega 1000 fermetra að stærð.
Langur ferill
Formleg vinna við undirbúning nýs leikskóla í Eyjafjarðarsveit hófst strax eftir kosningar árið 2018, en þá var að sögn Hermanns Inga Gunnarssonar oddvita farið að huga að uppbyggingu nýs leikskóla og ýmsar hugmyndir viðraðar. M.a. að byggja stakstæðan leikskóla eða leikskóla ofan á núverandi Niðurstaðan hafi þó verið sú að reisa nýjan leikskóla fast við grunnskólann og nýta samlegðaráhrif bæði í starfseminni og rekstri beggja skólanna. Næsti áfangi kemur ofan á núverandi grunnskólahúsnæði og íþróttamiðstöð og mun hýsa unglingadeild og líkamsrækt.
Uppbygging í takt við íbúaþróun
Stefnt er á að þeirri framkvæmd verði lokið haustið 2027. Að auki verður á hæðinni aðstaða fyrir kennara. Þá er einnig unnið að endurbótum og breytingum á eldri hluta Hrafnagilsskóla, m.a. verður bókasafn sem er í kjallara fært upp á jarðhæð og ýmislegt fleira í bígerð. „Þetta verður allt mjög flott þegar framkvæmdum lýkur,“ segir Hermann Ingi
Húsið verður í allt um 1800 fermetrar að stærð á tveimur hæðum og er kostnaður áætlaður um um 1800 milljónir króna. „Við höfum farið okkur hægt verið framkvæmdir og sniðið okkur stakk eftir vexti. Sveitarfélagið var skuldlaust og við vorum vel undirbúin undir þessa kostnaðarsömu uppbyggingu. Þetta var nauðsynleg framkvæmd og er í takt við þá miklu fjölgun íbúa sem er í sveitarfélaginu.“
Heimafólk leggur lið
Erna nefndi að mikið af góðu fólki hefði lagt hönd á plóg, starfsfólkið væri einstakt og hefði unnið sem ein heild við flutninga sem dæmi. Nemendur hafi sýnt þolinmæði á meðan á flutningi stóð og beðið þolinmóð eftir að framkvæmdum við útisvæði lýkur. Félagasamtökin Hagar hendur hafa ekki látið sitt eftir liggja, m.a. saumað smekki og klúta og gefið skólanum auk þess að kaupa sturtuhengi, en konur innan félagsins hafa áður gefið eitt og annað til skólans.
Ólöf Ása skólastjóri Grunnskólans og Erna Káradóttir skólastjóri leikskólans.
Kvenfélögin þrjú í sveitinni, Aldan/Voröld, Iðunn og Hjálpin gáfu skólanum bændamarkað sem er í garð skólans og þar verður sett upp búð, Kvenfélags Búðin. Kvenfélagskonur sáu um glæsilegar veitingar þegar skólinn var tekin í notkun.
„Við erum hér með glæsilegan leikskóla sem uppfyllir allar nútímakröfur og við sem samfélag getum verið stolt af,“ sagði Erna og bætti við að Krummakot væri ekki bara bygging heldur heimili fróðleiks, gleði og öryggis þar sem börnin munu þroskast og dafna. Skólinn væri hannaður með vellíðan og þroska barnanna að leiðarljósi.