„Í leit að gulli jarðar höfum við gleymt demöntum himinsins“

Verður Heimskautagerðið vinsæll áfangastaður í næturferðamennsku?. Mynd/northiceland.is
Verður Heimskautagerðið vinsæll áfangastaður í næturferðamennsku?. Mynd/northiceland.is

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í síðustu viku að verða aðili að DarkSky, fyrst sveitarfélaga á landinu. Hlutverk og markmið DarkSky International er að endurheimta næturhiminninn og vernda samfélög gegn áhrifum ljósmengunar með fræðslu og náttúruvernd að leiðarljósi.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar og málshefjandi sagði í samtali við vikublaðið að næturhiminninn væri náttúruleg, menningarleg og söguleg auðlind sem þurfi að vernda og nýta. Hann tók jafnframt fram að með því að taka þátt í verkefninu væri ekki um fjárhagslega kvöð að ræða.

En hvað er DarkSky?

„DarkSky hefur verið að miðla upplýsingum um ljósmengun síðan 1988. þetta er ekki eitthvað eitt heldur nokkur verkefni og við þurfum ekki að vera hluti af þeim öllum; alþjóðlegir staðir, alþjóðleg myrkrahiminsfriðlönd, samfélög í dökkum himni, gisting sem er samþykkt af DarkSky og fleira,“ segir Hjálmar og bætir við að í þessu samstarfi felist að vinna með samfélögum og stjórnvöldum að því að forgangsraða verndun næturhiminsins og gæðalýsingu utandyra.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Samkvæmt nýlegum rannsóknum hefur áhugi á stjörnufræði ferðaþjónustu (e. astrotourism) aukist verulega á undanförnum árum. Í Bandaríkjunum, þar sem mörg Dark Sky svæði eru staðsett, heimsóttu um 312 milljónir ferðamanna þjóðgarða árið 2022.

„Já, það eru tækifæri í himninum,“ segir Hjálmar og tekur sem dæmi Galloway Forest Park í Skotlandi sem var fyrsti Dark Sky garður í Bretlandi, en hann dregur að sér yfir 800.000 gesti árlega.

Hjálmar segir að í ljósi þessa sé í DarkSky fólgið tækifæri fyrir staðbunda ferðaþjónustu yfir vetrartímann.

„Við búum yfir miklu landsvæði og náttúru. Norðurljósin heilla ferðafólk og að upplifa kyrrð verður sífellt vinsælli vara í hraðadýrkandi samfélagi. Í leit að gulli jarðar höfum við gleymt demöntum himinsins,“ segir Hjálmar og veltir upp óþrjótandi möguleikum sem felast í næturhimninum.

Næturferðamennska er ónýtt auðlind

„Að koma í stjörnubað, stjörnuleiðsögn, stjörnumerkjamælingar, herbergi í myrkri sem eru aðeins lýst upp af tungli eða stjörnum og stjörnubjört lautarferð. Það fylgja þessu miklir möguleikar. Stjörnuganga um þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, stjörnustund út á Rauðanesi með brimið berjandi á klettunum, námskeið í næturljósmyndun, næturhátíðir, jóga undir stjörnuhimni og svo margt fleira,“ segir Hjálmar og bætir við að næturferðamennska muni breyta ferðalögum og opna ný tækifæri og einstaka upplifun.

Samtökin fagna áhuganum

Hjálmar hefur verið í samskiptum við DarkSky og segir að samtökin fagni áhuga Norðurþings á að vera fyrsta svæðið á Íslandi sem fetar þessa leið. „Það mætti kannski segja að stjörnurnar vísi okkur veginn.“

Aðspurður hvaða svæði komi helst til greina, svarar Hjálmar næstu skref séu að skoða það nánar. „Mér dettur strax í hug að Ásbyrgi og Melrakkasléttan kæmu til greina sem myrkravin. Að vera einn upp á Hólaheiði í störnubjörtum himni þar sem alheimurinn blasir við. Það má líka tengja verkefnið við sögu okkar sem Íslendingar enda voru það stjörnurnar sem vísuðu forfeðrum okkar á þessa eyju,“ segir Hjálmar Bogi að lokum.

 

 

 

 

Nýjast