Dansvídeóhátíðin Boreal hefst í Listasafninu á Akureyri föstudagskvöldið 24. október kl. 20. Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin er haldin og fara sýningarnar fram í Listasafninu, Mjólkurbúðinni, Deiglunni og Kaktus. Allir viðburðir eru opnir gestum að kostnaðarlausu og dagskrána má nálgast á samfélagsmiðlum og heimasíðum Boreal og Listasafnsins.
Með Boreal skapast vettvangur til kynningar á dansvídeóum með það markmið að leiða saman innlent og erlent listafólk, byggja brýr heimsálfa á milli og hvetja til samstarfs. Á hátíðinni eru sýnd metnaðarfull dansvídeó alls staðar að úr heiminum og er sérstaða Boreal fólgin í innsetningum sem settar eru upp í kringum sum verkin. Í ár verða sýnd 26 verk eftir listafólk frá 15 löndum og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari. Einnig verður staðið fyrir danstengdum viðburðum og samkomum á sýningartímanum.
Boreal er eina hátíð sinnar tegundar sem haldin er árlega hérlendis og hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021, sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.