Brynhildur ræðir bókina og deilir ástríðu sinni fyrir læsi, ungmennabókmenntum og mikilvægi þess að hefja lestraruppeldi strax í fæðingarorlofi.
„Silfurgengið er nútímasaga með sögulegri vídd, saga um fimmtán ára stelpu sem er að skipuleggja afmælispartí en eins og við vitum öll gerist alltaf eitthvað óvænt þegar maður er upptekinn við svona plön. Amma hennar gefur henni gamla silfurnælu og saga þessarar nælu og fyrri eigenda hennar, Silfurgengisins, nær smátt og smátt tökum á stelpunni, samhliða því sem brasið eykst með vinkonur og partímál,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent við Kennaradeild HA og rithöfundur, um nýjasta verk sitt Silfurgengið sem kemur út í dag.
„Þetta er húmorísk saga með heilmiklu drama og dassi af rómans. Sögusviðið er Reykjavík, með viðkomu á stöðum eins og Borðeyri og Nýja-Íslandi. Það er aldrei að vita hvað verður manni að efniviði.“
Frá gulum miðum til silfraðrar kápu
Brynhildur segir að hugmyndir hennar fái að malla lengi áður en þær verða að texta. „Flestar sögur byrja á hugmyndum sem lifa í hausnum á mér um hríð. En í þetta skiptið þurfti ég mikla heimildavinnu – ég lá vikum saman á tímarit.is að skoða gömul blöð, bæði til að afla efnis og til að fanga stemmingu.“
Til að halda utan um flókna frásögn þriggja tímabila – samtímans, ársins 1887 og 1957, notaði hún sjónræna aðferð. „Ég greip til gulu miðanna. Ég skrifaði á þá atburði, kafla, senur, raðaði þeim upp á vegg og færði til þar til allt passaði. Það var alveg dásamlegt að taka miðana niður þegar bókin fór í prentun.“ Ferlið allt tók tvö ár og kápuna hannaði Alexandra Buhl. „Þessi bók var lengi í vinnslu, en hún varð einmitt sterkari fyrir vikið.“
Samfélagið og tíðarandinn í forgrunni
Brynhildur hefur lengi unnið með sögulegar víddir í skáldskap sínum. „Ég hef oft miðlað sögunni gegnum skáldskap. Unglingabókin Ungfrú fótbolti sem kom út árið 2019 fangar til dæmis tíðarandann árið 1980 en Silfurgengið teflir saman ólíkum tímum og samfélögum – hvert með sínar áskoranir og tækifæri.“ Hún telur slíkt sjónarhorn öflugt kennslutæki og uppsprettu umræðu: „Það er áhugavert að spegla samfélög með þessum hætti og vekja lesendur til umhugsunar.“
Fyrir unga – og alla forvitna lesendur
„Aðalpersónan er fimmtán ára, en sagan nær til ömmu hennar og langalangömmu,“ segir Brynhildur. „Ég myndi segja að bókin sé fyrir unga lesendur, alla sem hafa gaman af því að skoða heiminn frá sjónarhóli unglinga – og þá sem kunna að meta bækur með sögulegu ívafi. Það er enginn hámarksaldur á unglingabókum.“
„Við þurfum fleiri bækur á íslensku“
Brynhildur segir að sem betur fer séu enn til bókelskir unglingar og enn komi út unglingabækur en þær séu því miður allt of fáar. „Við erum sex höfundar með söguhetju á unglingsaldri þetta haustið. Þetta eru allt fínar bækur en úrvalið er alls ekki nægilegt fyrir þennan breiða lesendahóp. Það er ekki þannig að allir unglingar fíli sömu bækurnar, en allir unglingar þurfa að fá bækur sem þeir gætu hugsað sér að lesa. Mín bók er til dæmis eina íslenska ungmennabókin þessi jólin sem ekki er fantasía. Ein einasta bók fyrir unglinga gerist í raunheimum í samtímanum, eitthvað yrði sagt ef þetta væri úrvalið fyrir fullorðna lesendur,“ segir Brynhildur um stöðu unglingabókmennta.
Um lestrarvenjur og ábyrgð samfélagsins
Brynhildur segir að þó að samkeppni um athygli ungmenna hafi aukist, séu þau alls ekki hætt að lesa. „Það sem hefur haft mest áhrif er hin háværa, neikvæða orðræða um læsi. Með því að hamra stöðugt á því að unglingar séu upp til hópa ólæsir höfum við gert bóklestur að vandamáli sem veldur því að fólk veigrar sér við að gefa unglingum bækur – og það er skaðlegt. Börn og unglingar kaupa ekki sjálf bækur, við hin berum ábyrgðina.“
Hún segir jafnframt að samfélagið þurfi að skipta um gír. „Við verðum að nálgast lestur af jákvæðni og forvitni – og baða unga lesendur í bókum. Látum ekki unglingana eiga bóklaus jól.“
„Það kostar að halda uppi tungumáli – en það kostar meira að glutra því niður“
Í umræðu um yfirráð enskunnar tekur Brynhildur afstöðu. „Það er einföld jafna, ef fólk hefur ekki trú á ungum lesendum og kaupir ekki bækur á íslensku, hætta útgefendur að gefa þær út. Það kostar að halda uppi tungumáli – en það kostar meira að glutra því niður.“
Brynhildur bendir jafnframt á að í Noregi sé útgáfa barna- og unglingabóka tryggð með því að ríkið kaupi fjölda eintaka og dreifi í skóla. „Við ættum að skoða sambærilegar leiðir á Íslandi.“
Skólar og kennarar sem áhrifavaldar
Aðspurð um hvernig hvetja megi ungt fólk til lestrar segir Brynhildur að fjölmiðlar, skólar og bókasöfn hafi mikil áhrif.
Brynhildur bendir á að víða um land sé verið að vinna frábær lestrarhvatningarverkefni í bókasöfnum og skólum, þó að þau fái oft litla umfjöllun. „Barna- og unglingabækur þurfa að verða sýnilegar í kennslustofum,“ segir hún. „Kennarar og starfsfólk skóla eru áhrifavaldar þegar kemur að lestri. Þeir geta vakið forvitni, fylgst með útgáfu, boðið höfundum í heimsókn og skapað lifandi lestrarstemmingu.“
„Nemendur þurfa að geta speglað sig í veröld bókanna“
Aðspurð hvort klassískar íslenskar skáldsögur, eins og verk Halldórs Laxness, eigi áfram að hafa fastan sess í skólum, segir Brynhildur að umræðan snúist í raun um markmið bókmenntakennslu. Getur verið að við höfum verið svo slegin yfir minnkandi lestri að við höfum aðallega litið á bækur í skólum sem tæki til að fá nemendur til að lesa yfirhöfuð? Þetta þarf að rannsaka frekar.
Hún segir mikilvægt að finna jafnvægi á milli áhuga og áskorunar. „Krefjandi bókmenntir þurfa ekki að vera leiðinlegar – kennslan ræður miklu um það hvernig verkin lifna við. Nemendur eiga að fá að lesa bækur sem þeir tengja við og sem hreyfa við þeim, hvort sem það eru Íslendingasögurnar, Sjálfstætt fólk eða glæný unglingabók.“
Brynhildur telur að klassískar skáldsögur eigi áfram sitt pláss, en kennslan verði að taka mið af aldri og þroska. „Ég las Íslandsklukkuna í 9. bekk og fannst hún drepleiðinleg, en þegar ég las hana aftur í menntaskóla var hún allt önnur upplifun. Markmiðið hlýtur að vera að nemendur þroskist af bókmenntavinnunni, ekki bara að þeir klári bókina.“
„Unglingarnir eru ekki vandamál“
„Almennt þurfum við að hætta að tala niður til unglinga og skamma þá fyrir hnignandi læsi,“ segir Brynhildur. „Unglingarnir eru ekki vandamálið – heldur umhverfi þeirra.“ Hún segir samfélagið allt, ekki síst fjölmiðla, bera ábyrgð á viðhorfi til lestrar. „Við þurfum að sýna bókum og lesefni unga fólksins virðingu og áhuga, veita því jákvæða athygli og beina sjónum að því sem vel er gert.“
„Lestraruppeldið þarf að hefjast í fæðingarorlofinu“
Að lokum snýr Brynhildur sér að foreldrum og því hvernig heimilin geta haft úrslitaáhrif á lesskilning og lestraráhuga barna. „Lestraruppeldið þarf að hefjast strax í fæðingarorlofinu. Börn þurfa að venjast því að bækur tengist gæðastundum og styrki tengsl. Börn sem alast upp við lestur standa sterkar þegar kemur að skólagöngu.“
Hún leggur áherslu á að lesskilningur sé ekki einangrað fyrirbæri sem börn þurfi bara að ná tökum á, heldur byggist á orðaforða, forþekkingu og færni í að draga ályktanir. „Við getum orðað það þannig að mælingar á lesskilningi sýni hversu víðlesin börnin eru. Börn sem alast upp við lestur eru líklegri til að lesa sjálf – og því meiri áhuga sem þau hafa á lestri, því betri verður skilningurinn.“
Brynhildur ráðleggur foreldrum að tala við börnin sín eins og hugsandi fólk. „Lesið með þeim, spyrjið spurninga og ræðið sögurnar. Þannig læra þau að tengja textann við eigin reynslu og leita að hinu ósagða.“ Hún hvetur einnig foreldra til að gera bækur sýnilegar heima og lesa sjálf. „Börnin þurfa að sjá ykkur með bók í hönd. Hafið bækur innan seilingar – jafnvel á óvæntum stöðum. Ekki gera lestur að kvöð heldur að hlýju augnabliki. Lesið saman, hlustið saman, farið saman á bókasafnið – og prófið kósíkvöld með popp og bók.“
Að lokum minnir hún á að þetta sé verkefni okkar allra. „Við erum í þessu saman – kennarar, foreldrar, bókasöfn og höfundar. Börn lesa ekki á íslensku nema þau fái bækur á íslensku, bækur á íslensku verða ekki til af sjálfu sér og þær verða ekki til áfram nema við hömpum þeim og metum að verðleikum.“