Stofnfé í Sparisjóði Höfðhverfinga aukið og nýr sparisjóður á Akureyri

Stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga hefur ákveðið að auka stofnfé sjóðsins um allt að 500 milljónir króna til að undirbyggja útvíkkun á starfsemi með opnun nýs sparisjóðs á Akureyri.  Þetta er gert á grundvelli viljayfirlýsingar á milli KEA, Akureyrarbæjar og Sænes um að kaupa stofnfé í fyrirhugaðri stofnfjáraukningu en stjórn sjóðsins mun leggja tillögu þessa efnis fyrir stofnfjáraðilafund sjóðsins sem haldinn verður í lok mánaðarins.  

KEA svf. á nú 35% stofnfjár í sjóðnum og hyggst auka eign sína í tæplega 50%.  Sænes hf. sem er hlutafélag í eigu Grýtubakkahrepps mun tvöfalda eignarhlut sinn eða í 20% en fyrir liggur einnig að Akureyrarbær mun kaupa stofnfé í þessari aukningu um allt að 20%. Sparisjóður Höfðhverfinga er ein elsta fjármálastofnun landsins en sjóðurinn var stofnaður 1879.  Sjóðurinn hefur verið minnsta fjármálastofnun landsins um langt skeið en nú verður breyting á, enda fyrirhuguð aukin umsvif með opnun sparisjóðs á Akureyri. Enginn sparisjóður er nú starfandi á Akureyri en þeir voru á árum áður tveir sem sameinuðust í Sparisjóð Norðlendinga sem síðar rann inn í BYR hf.  Sparisjóður Höfðhverfinga er með mjög sterka lausafjárstöðu og er einn þriggja sparisjóða sem ekki hafa þurft aðstoð hins opinbera eftir hrun bankakerfisins.  Fjárhagslegur styrkur sjóðsins er mikill en svokallað cad-eiginfjárhlutfall er nú um 14%.  Eftir stofnfjáraukninguna og opnun sparisjóðs á Akureyri verður fjárhagsstaða sjóðsins afar sterk og verður sú besta meðal íslenskra fjármálafyrirtækja.

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga segir þetta mikil tímamót hjá sjóðnum og spennandi verkefni.  „Ég fagna aðkomu KEA að þessu verkefni en KEA og sparisjóðirnir eru fyrirtæki sem eiga sér svipaðan hugmyndafræðilegan bakgrunn.  Jafnframt fagna ég mjög aðkomu Akureyrarbæjar að þessu verkefni en þetta undirstrikar trú og vilja manna til að festa í sessi sparisjóð á þessu svæði í eigu heimamanna.  Nú er enginn sparisjóður á Akureyri en við höfum merkt mikla eftirspurn eftir slíkum sjóði og erum að bregðast við henni.  Þetta er veruleg stofnfjáraukning og sjóðurinn stækkar mikið en verðandi stærstu eigendur eru mjög traustir aðilar; KEA, Sænes og Akureyrarbær.  Ég vona að innan ekki langs tíma geti Akureyringar stundað viðskipti við sparisjóð í eigu heimamanna.  Hentugt húsnæði liggur fyrir og stefnt að því að sparisjóðurinn hefji starfsemi á Akureyri strax í haust.  Það er markmið okkar að bjóða síðan almenningi kaup á stofnfé í sjóðnum en Akureyrarbær hyggst selja sitt stofnfé til almennings þegar uppbygging starfseminnar á Akureyri er komin vel á veg.  Það er vilji til þess að sem flestir geti átt samskipti við sjóðinn, bæði sem eigendur og viðskiptamenn".

Nýjast