Á fundi umhverfisráðs í gær var rætt um útboð á sorphirðu fyrir stofnanir og fyrirtæki Akureyrarkaupstaðar. Töluvert er um
að stofnanir bæjarins flokki úrgang að einhverju eða öllu leyti. Umhverfisnefnd leggur til að allar stofnanir og fyrirtæki Akureyrarkaupstaðar taki upp
flokkun á úrgangi sem fellur til við starfsemi þeirra. Flokka skal endurvinnanlegan úrgang og lífrænt sorp.
Óendurvinnanlegum úrgangi, sem fer til urðunar, skal halda í lágmarki. Við breytt fyrirkomulag sorphirðu í bænum og í anda
Staðardagskrár 21 er mikilvægt að sveitarfélagið sé þátttakandi og sýni gott fordæmi. Lagt er til að innleiðing nýs
fyrirkomulags verði lokið á árinu 2011. Umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarráðs.
Helgi Pálsson rekstrarstjóri Gámaþjónustu Norðurlands ehf mætti á fund umhverfisráðs og fór yfir stöðu
innleiðingar nýs sorphirðukerfis. Petrea Ósk Sigurðardóttir B-lista lýsti yfir miklum vonbrigðum á þeirri seinkun hjá
Gámaþjónustu Norðurlands ehf við að afhenda íbúum bæjarins tvískiptar tunnur og ómarkvissri kynningu til bæjarbúa.
Petrea Ósk fagnar því að verið sé að bæta úr þeim málum.
Þá var á fundi umhverfisnefndar lagt til að halda samningi við Flokkun Eyjafjarðar ehf á móttöku á timbri. Annar úrgangur s.s.
garðaúrgangur, gras, jarðvegur, múrbrot og gler verður í umsjá Framkvæmdamiðstöðvar og nýttur til fyllingar við
framkvæmdir á vegum Akureyrarkaupstaðar.