Á fundi stjórnar Hafnasamlags Norðurlands á dögunum var sú ákvörðun forsvarsmanna Eimskipa að legga niður strandsiglinar til umræðu.
Stjórnin lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að leggja af strandsiglingar til hafna á Norðurlandi og Vestfjörðum í kjölfar stöðvunar á starfsemi kísilverksmiðju PCC á Bakka.
Þessi ákvörðun mun þýða töluvert tekjutap fyrir hafnasamlagið, dregur úr samkeppni auk þess að leiða af sér aukið álag og slit á þjóðvegakerfinu. Jafnframt mun slysahætta með mikilli fjölgun flutningabíla á vegakerfinu aukast umtalsvert. Einnig er ljóst að strandsiglingar hafi mun minni neikvæð umhverfisáhrif heldur en umferð flutningabíla.
Það er mikið hagsmunamál fyrir íbúa á landsbyggðinni auk fyrirtækja að flutningskostnaður sé eins hagkvæmur og kostur er og er það mat stjórnar Hafnasamlagsins að strandflutningar séu liður í því.
Því hvetur stjórn Hafnasamlags Norðurlands innviðaráðherra til að leita allra leiða til að strandflutningar leggist ekki af heldur verði auknir eins og kostur er.
Segir í samþykkt stjórnar