Nú í haustfríinu fór Skautafélag Akureyrar (SA) til Vilnius í Litháen þar sem liðið tók þátt í Continental Cup. Tvær kynslóðir MA-inga léku með liðinu, þeir Aron Gunnar Ingason 2F, Bjarmi Kristjánsson 3Z og Ingvar Þór Jónsson kennari. Þess má geta að Ingvar Þór kennir Bjarma forritun.
Meðfylgjandi mynd tók Kristján Sturluson, faðir Bjarma, af Ingvari og Bjarma eftir lokaleik SA, sem liðið vann í framlengingu gegn PSK Narva frá Eistlandi og tryggði sér þar með þriðja sætið á mótinu. Aron Gunnar jafnaði leikinn með marki fyrir SA.
Ingvar Þór á orðið afar langa sögu sem íshokkíleikmaður og var lengi fyrirliði íslenska landsliðsins. Í gegnum tíðina hafa margir öflugir íshokkíleikmenn verið nemendur í MA, bæði í kvenna- og karlaflokki. Ingvar hefur því kennt þeim mörgum, bæði á svellinu og inn í kennslustofunni. Kristján lét einmitt fylgja með myndinni að ungur nemur - gamall temur :)